Björn Jón Sigtryggsson fæddist á Seyðisfirði 5. maí 1937. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 2. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Páll Sigtryggur Björnsson frá Gilsárteigi í Eiðaþinghá, f. 22.5. 1902, d. 11.12. 1991, og María Ólafsdóttir frá Hvassafelli í Borgarfirði syðri, f. 28.10. 1905, d. 21.8. 1979. Systkini Björns eru: Guðborg Björk, f. 28.7. 1931, Klemens Baldvin, f. 12.3. 1935, d. 2.4. 2012, Kristinn Reynir, f. 13.4. 1943, Arndís, f. 28.4. 1945, og Sigurbjörn, f. 16.2. 1948, d. 9.7. 2009. Eiginkona Björns var Guðrún Borghildur Þórisdóttir, f. 28.11. 1934 í Garðshúsi á Seyðisfirði, d. 2.3. 2012. Foreldrar hennar voru Þórir Daníelsson sjómaður, f. 20.7. 1909, d. 7.12. 1964, og Ragnheiður Jónsdóttir, f. 22.8. 1897, d. 6.7. 1981. Börn Björns og Guðrúnar eru: 1) Birna, f. 29.4. 1960, maður hennar er Stefán G. Gunnarsson, f. 15.3. 1962, börn þeirra a) Smári Björn, f. 23.8. 1981, maki Svala Ásgeirsdóttir, f. 11.5. 1977, barn þeirra er Mábil, f. 21.10. 2011, b) Ólafur Grétar, f. 18.11. 1984, maki Guðrún Magnúsdóttir, f. 1.11. 1987, börn þeirra eru Magnús Gunnar og Stefán Rúnar, f. 4.6. 2007, Sunneva Rós, f. 4.4. 2010, c) Hafþór Örn, f. 15.12. 1988, maki Svanhvít Valtýsdóttir, barn þeirra er Viktor Ingi, f. 25.2. 2013. 2) Ragnheiður Þóra, f. 25.8. 1961, barn hennar Borghildur Dóra, f. 1.5. 1984, maki Sveinbjörn Guðmundsson, f. 27.7. 1983, barn Borghildar er Svavar Máni, f. 8.4. 2005, barn Borghildar og Sveinbjörns er Birta Nótt, f. 27.11. 2009. 3) Páll Sigtryggur, f. 10.10. 1962, börn hans Anika, f. 3.7. 1992, og Harpa, f. 23.9. 1994. 4) Pétur, f. 13.6. 1964, börn hans eru Erlingur Þór, f. 11.2. 1990, Heiða María, f. 2.1. 2001, og Jón Valberg, f. 11.4. 2004. 5) María, f. 31.5. 1966, barn hennar er Irma Lín Geirsdóttir, f. 14.5. 1989, barn hennar er Röskva María, f. 18.10. 2011. 6) Daníel, f. 21.6. 1973, maki hans er Jóhanna Magnúsdóttir, f. 23.2. 1976, börn þeirra eru Bjarki Sólon, f. 25.9. 2002, og Gabríel, f. 16.4. 2007. Björn gekk í Barnaskóla Seyðisfjarðar og síðar í Alþýðuskólann á Eiðum. Hann vann ýmis störf. Á síldarárunum vann hann á síldarplönunum. Hann var bankagjaldkeri um langt skeið. Á síðari árum gekk hann til almennrar verkamannavinnu. Áhugamál Björns voru hestar og tónlist og söng hann í samkórnum Bjarma á Seyðisfirði. Einnig spilaði hann á harmónikku og spilaði í harmónikkuklúbbi á Seyðisfirði. Björn og Guðrún gengu í hjónaband hinn 26. desember 1959 og bjuggu þau alla sína tíð á Seyðisfirði. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau í Baldurshaga. Hinn 7. apríl 1968 flutti fjölskyldan í sitt eigið húsnæði á Múlavegi 31 þar sem þau bjuggu allt til æviloka. Björn var mjög stoltur afi og þótti ákaflega vænt um öll barnabörnin og barnabarnabörnin sín. Hann hafði einstakt lag á þeim og gaf sér tíma til að spjalla við þau eða dunda við ýmsa skemmtilega hluti. Björn verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 8. mars 2014, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það eru erfið spor að kveðja foreldra sína hinstu kveðju. Fyrir tveimur árum kvöddum við elskulega mömmu, eða þann 2. apríl 2012. Nákvæmlega tveimur árum síðar stend ég í þeim sporum að kveðja þig elsku pabbi minn. Ekki bjóst ég við að þú færir svona snöggt frá og á erfitt með að sætta mig við að þú sért farinn.

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tveir dökkklæddir menn
gengu fram hjá
og heilsuðu:
Góðan dag, litla barn,
góðan dag!

/
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvær ljóshærðar stúlkur
gengu fram hjá
og hvísluðu:
Komdu með, ungi maður,
komdu með!

/
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöld!

(Steinn Steinarr)

Ótal minningar vakna. Alltaf gafstu þér góðan tíma til að verja með mér. Þegar ég var lítill patti spiluðum við mikið saman, rommý, kasínu eða eitthvað annað skemmtilegt spil. Í hjólhýsaferðunum okkar áttum við einstaklega ljúfar og góðar stundir. Aldrei leiddist mér þar þótt ég væri einn þar með ykkur mömmu. Á kvöldin tókum við nánast alltaf í spil og þegar veðrið var ekki gott. Sjónvarpslausu fimmtudagskvöldin eru mér minnisstæð. Þeim kvöldum varði fjölskyldan saman við eldhúsborðið við spil, lestur, hlusta á útvarpsleikrit eða eitthvað annað skemmtilegt.

Þið mamma áttu það sameiginlegt að stundum virtust þið aldrei sofa enda margt sem þurfti að gera þegar barnahópurinn var stór. Nota þurfti þann tíma sem börnin sváfu til að sinna hinum ýmsu verkum; smíða, laga, sauma, bæta, baka og margt fleira.

Þú varst mikill dýravinur eins og mamma, alltaf var köttur eða hundur á heimilinu og hændust þau öll að ykkur. Hundar voru í miklu uppáhaldi hjá þér og eftir að mamma dó var Labbi, og síðar Zorro, þitt haldreipi og einn besti félagi.

Strákarnir okkar fengu að njóta þeirra kosta sem þú hafðir. Þú gafst þeim alltaf tíma, hvort sem það var við spjall, grín eða leik. Það voru ósjaldan sem þú sóttir kubba- og bílakassann eða tindátana og settist með þeim og lékst við þá. Það er merkilegt hvað hægt var að gera lítinn dótakassa ótrúlega spennandi. Þú hafðir lag á því.

Eitt af því einstaka í fari þínu var endalaus þolinmæði og átti hún það jafnvel til að gera aðra óþolinmóða. Þessi einstaki kostur þinn var líklega hluti af öðrum kosti sem þú hafðir sem var þrjóska. Hún var alveg endalaus en nánast undantekningalaust á góðan máta, því þú varst sanngjarn og hlustaðir á rök. Annað sem einkenndi þig var umburðarlyndi og ósérhlífni.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna með þér, bæði við síldarsöltun í Strandarsíld og síðar við loðnubræðslu í Vestdalsmjöli. Það er mér afar minnisstætt þegar við unnum saman í Vestdalsmjöli þegar snjóflóð féll á verksmiðjuna. Einn og einn maður týndist út úr verksmiðjunni þar til allir voru komnir út nema þú og leið allnokkur stund þar til þú birtist. Þá var ekki neinn asi á þér frekar en fyrri daginn. Þú komst út í rólegheitunum og þurftir að sjálfsögðu að loka hurðinni á eftir þér. Líklega var það eina uppistandandi hurðin sem eftir var í verksmiðjunni. Sem betur fer voru heilladísirnar með okkur á þessum tíma þar sem allir sluppu ómeiddir.

Það voru auðvitað erfiðir tímar í þínu lífi eins og lífi annarra og oft var erfitt að yfirstíga þessa tíma. Hins vegar tókst þér það alltaf. Þegar ég kom fyrst heim til þín eftir að þú varst farinn settist ég inn í svefnherbergið ykkar mömmu. Það var skrítin tilfinning og mjög erfið. Á veggnum við rúmið þitt hangir bæn sem ég þykist vita að þú hefur reynt að tileinka þér:

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég get ekki breytt,
kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr)

Elsku besti pabbi minn. Það eru þung spor að kveðja þig. Þessari stundu hefur mér alltaf kviðið fyrir, stund sem markar tímamót í lífi sérhverrar manneskju. Ég reyni að sætta mig við missinn með því að hugsa um að þú sért kominn til þeirrar manneskju sem þú elskaðir og dáðir.

Ég þykist vita að það séu fagnaðarfundir hjá þér og mömmu núna á öðrum stað. Gabríel er viss um að amma Gunna hafi bakað köku og sett í ísskápinn til að eiga fyrir þig þegar þú kemur til hennar. Bjarki Sólon, Gabríel og Jóhanna sakna afa Kúdda óendanlega mikið. Betri afa og tengdapabba var ekki hægt að eiga. Þú gefur ömmu Gunnu stórt knús frá okkur.

Þín alltaf mun ég minnast

fyrir allt það góða sem þú gerðir,

fyrir allt það sem þú skildir eftir,

fyrir gleðina sem þú gafst mér,

fyrir stundirnar sem við áttum,

fyrir viskuna sem þú kenndir,

fyrir sögurnar sem þú sagðir,

fyrir hláturinn sem þú deildir,

fyrir strengina sem þú snertir,

ég ætíð mun minnast þín.

(F.D.V.)

Ég mun alltaf elska þig og geymi þig ávallt í hjarta mínu.

Þinn litli kútur,

Danni.