Þorgeir Sigurgeirsson fædd-
ist 20. ágúst 1928 á Orrastöð-
um Torfalækjarhreppi í Austur--
Húnavatnssýslu. Hann lést á Heil-
brigðisstofnun Blönduóss 9. apríl
2015.
Þorgeir var sonur hjónanna Sig-
urgeirs Björnssonar, f. 7. október
1885, d. 28. júní 1936, bónda á Orra-
stöðum, og Torfhildar Þorsteins-
dóttur húsfreyju, f. 13. júlí 1897, d.
3. janúar 1991. Bræður Þorgeirs
eru: Þorbjörn, f. 1917, d. 1988,
kvæntur Þórdísi Þorvarðardóttur
sem er látin og eiga þau fimm syni,
Þormóður, f. 1919, d. 2012, kvænt-
ur Magdalenu Sæmundsen sem er
látin og eiga þau eina fósturdóttur,
Þorsteinn Frímann, f. 1934, kvænt-
ur Stefaníu Guðmundsdóttur sem
er látin og eiga þau 5 börn, og Sig-
urgeir Þór Jónasson, f. 1941,
kvæntur Guðrúnu Pálsdóttur og
eiga þau þrjú börn.
Þorgeir kvæntist árið 1951 Önnu
Sigurjónsdóttur, f. 21. janúar 1932,
en þau slitu samvistum 1962. Börn
Þorgeirs og Önnu eru: Torfhildur
Sigrún Þorgeirsdóttir, f. 29. apríl
1951. Maki Leifur Brynjólfsson, f.
10. desember 1952, og eiga þau syn-
ina Loga Geir og Bergþór og 8
barnabörn. Jónas Þorgeirsson, f.
26. október 1952, maki Harpa
Högnadóttir, f. 16. júlí 1965, og
eiga þau tvö börn, Jórunni Lilju og
Andra Geir, og eitt barnabarn.
Þorgeir kvæntist árið 1964 seinni
konu sinni Sólveigu Björnsdóttur,
fædd 9. desember 1927, látin 26.
mars 2013, en þau slitu samvistum
árið 1982. Börn Sólveigar eru Lúð-
vík, Barbara, Terry og Gunnar Bill.
Sonur Þorgeirs og Sólveigar er
Þorgeir Sigurður Þorgeirsson, f.
12. mars 1964. Maki Karina Chaika
Þorgeirsson, f. 9. október 1970, og
eiga þau tvo syni, Dymitri Daníel
og Sergei Kristian.
Þorgeir bjó á Blönduósi til ársins
1954 og starfaði þar að mestu við
bifreiðaakstur. Eftir að hann flutti
til Reykjavíkur vann hann við bíla-
viðgerðir. Hann bjó síðan um tíma í
Keflavík og Kópavogi en flutti til
Hveragerðis árið 1966 og bjó þar
eftir það. Hann rak um tíma sauma-
stofu og veitingastað, en síðustu 10
árin var hann starfsmaður Hita-
veitu Hveragerðis. Síðustu tvö ár
ævi sinnar dvaldi Þorgeir á Heil-
brigðisstofnun Blönduóss.
Þorgeir unni landinu sínu og var
mjög fróður um það. Hann stofnaði
félagið FFH Ferðafélag Hvera-
gerðis. Hálendisferðir voru í miklu
uppáhaldi meðan heilsan leyfði og
þá hvort sem var að vetri eða
sumri. Hin síðari ár var hann oft
einn á ferð með hundinn sinn og
ferðaðist þá á sérstökum ferðabíl-
um eða með lítið tjald.
Útför Þorgeirs fer fram frá
Blönduóskirkju í dag, 18. apríl
2015, kl. 14.
Þegar ég kom til vits og ára urðu samskipti okkar Deidei frænda fremur á félagslegum nótum, áratuga aldursmunur skipti þá engu og ferðamennskan, sem oft tengir fólk sterkum böndum, var iðulega í forgrunni. Einlægari, áhugasamari og skemmtilegri ferðafélaga en Deidei var ekki hægt að hugsa sér. Ef við vorum ekki í ferðalögum þá var rætt um ferðalög og hvert ætti að fara næst. Það átti ekki við hann að fresta ferð ef t.d. buldi á með roki og rigningu. Þá var viðkæðið að veðrið batnaði nú ekki fyrr en við færum af stað og sú var líka oft raunin.
Í ferðum var jafnan glatt á hjalla og kvöldin í fjallaskálunum liðu með gamanmálum og söng. Frændi var söngmaður og kynnti fyrir okkur ferðafélögunum húnverska sönghefð, lög Fosters voru honum jafnan hugleikin og Haukur Mortens í uppáhaldi. Sólveig var líka frábær söngkona og hafði lag á að syngja ameríska sveitasöngva. Þegar fólk tók á sig náðir átti frændi til að segja draugasögur, af draugagangi í Kolkuskála eða einhentu konunni í Hvítárnesi, svo eitthvað sé nefnt. En oft urðu draugasögurnar svo fyndnar í meðförum hans að maður gat ekki orðið alvarlega skelkaður, fremur var að hlátur hamlaði svefni en ótti við drauga.
Einu sinni ræddum við Deidei að fara í áramótaferð Ferðafélags Íslands í Þórsmörk. Hann var nokkuð hikandi, óttaðist að þetta væri svo gamalt lið á ferð með Ferðafélaginu að það yrði bara ekkert stuð, enda sjálfur ekki orðinn sjötugur. Við slógum samt til og vorum ekki sviknir af góðum félagskap. Deidei, aldursforsetinn í ferðahópnum, lék á als oddi og blés munnhörpurnar sínar linnulítið alla nýársnóttina í Langadal, fyrir dansi og söng.
Deidei fór jafnan fyrir í jeppaferðum, hann þótti glöggur að lesa ár en hann var líka grallari sem mátti vara sig á. Eitt sinni á heimleið okkar úr Tindfjöllum hafði hann ekið klakklaust yfir Fiská á Gipsy jeppanum sínum. En áður en næsta jeppa bar að kom hann bílnum fyrir við ána einmitt þar sem árhylur var, til að svo liti út að þar hefði hann ekið yfir. Það leiddi næsta jeppa náttúrulega beint í gildruna, en það var þó engin hætta á ferð og frændi fékk ánægjuna af að draga okkur upp úr ánni.
Frændi bjó lengi í litlu rauðu húsi við Bláskóga í Hveragerði. Þegar ég sótti fjarnám í Garðyrkjuskólanum átti ég alltaf þar inni og frændi tilbúinn að fæða mig og hýsa.
Einn vetur kom ég akandi frá Fljótsdalshéraði og átti að vera mættur í skóla kl. 9 að morgni. Vegna ófærðar sóttist ferðin hægt og loks um fjögur leytið að nóttu var ég kominn í Hveragerði úrvinda af þreytu. Þá bankaði ég upp á hjá frænda sem tók mér opnum örmum þótt hann ætti alls ekki gesta von á þessum tíma sólarhrings. Ég kastaði mér í sófann en frændi var glaðvaknaður og vildi náttúrulega heyra ferðasöguna en fékk eingöngu að heyra hrotur gestsins. Húsið hans, með Skoda Pardusnum í innkeyrslunni, komst reyndar á spjöld kvikmyndasögunnar þegar Deidei léði það við upptökur á kvikmyndinni Karlakórinn Hekla, minnist ég þess þegar við fórum á frumsýningu myndarinnar í Háskólabíó.
Þegar við Deidei spjölluðum saman var okkur tíðrætt um hundahald, sameiginlegt áhugamál okkar. Hann var næmur fyrir velferð og vellíðan þessara ferfætlinga og hundurinn hans Mosi var jafnan með honum í för. Ég hreifst af að sjá hve sterk tengsl og vinátta gat myndast milli manns og dýrs og hve vel hann náði til þeirra. Eitt sinn tók frændi tíkina mína að sér í nokkra daga í Hveragerði. Þegar ég kom í heimsókn um ári síðar, ásamt seppa, urðu slíkir fagnaðarfundir að það er mér ógleymanlegt. Hef ég aldrei séð hundinn minn dansa af slíkri gleði og við þessa endurfundi við ,,frænda sinn. Frændi tók það nærri sér þegar hann missti Mosa og hann hugsaði mikið til hans eftir dauða hans og hvernig hann ,,angans skinnið hefði það. Á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi, þar sem Deidei varði síðustu árum ævi sinnar, var vistfólki stundum boðið að fá hunda í heimsókn. Það var frænda mikils virði og hann naut þess að geta átt þar samvistir með þessum dýrum og vinum.
Að lokum er ekki annað hægt en að minnast ógleymanlegrar ferðar í Þórsmörk í janúar 1989. Við vorum þar saman á nokkrum jeppum í helgarferð og eftir að við lögðum af stað heimleiðis úr Langadal brast á slík ofsahríð að allir lækir og ár tepptust af snjó og krapa sem engum bíl var fært yfir. Það var lengi reynt að kljást við erfiðar aðstæður sem þó á endanum reyndust ofraun og á sunnudagskvöldi vorum við ekki komin lengra en niður fyrir Lón. Þar gáfumst við upp, með eitthvað af löskuðum jeppum og hröktu fólki og létum fyrirberast í bílunum. Á mánudagsmorgni var veðrið gengið niður en við áttum okkur samt sem áður ekki aðra björg en sem þá margir hafa leitað til í neyð. Það var að hafa samband við hjálparsveit og óska eftir aðstoð við að koma okkur til byggða. Sveitin brást skjótt við og selflutti okkur á snjósleðum yfir krapafulla lækina niður að Merkurbæjum og ók okkur þaðan í jeppum út á Hvolsvöll. Þaðan komust svo allir til síns heima með áætlunarrútunni. Eftirfarandi vísur eru hluti 14 erinda kvæðabálks sem Deidei orti um basl okkar í þessari eftirminnilegu Þórsmerkurferð.
Á heimleiðinni veður breytist
Ofsarok og snjórinn þeytist
Bílar skekjast til og frá.
Einn þó dimmum rómi kallar
,,hérna nokkuð landi hallar
brekkuna takið bara á ská.
Út í hríðina þá spranga
á undan bílum ætla að ganga
,,ég óveðrið ei stoppa læt.
Snjór í mitti Jón er tregur
Hinn þá eyrnasnepla dregur
Samt öslar áfram Geiri gæd.
Brátt varð Nonna nú í brók
Ekki betra við þá tók
Einhver út um gluggann leit.
,,Hver er þessi svarta hrúga
Ætlar einhver Lónið brúa?
Nei, Stóri Jón hann þessu skeit.
Krapasvelgir reynast gljúpir
Svo eru þeir svo skratti djúpir
Sumir sukku nær urðu heftir
Stúlka ein sökk upp að hupp
Það varð að draga hana upp
Þar skór og buxur urðu eftir.
Hér skal láta fyrir berast
Þar sem krapalænur skerast
Mörgum var þá ekki rótt.
,,Hér verða allir sko að sofa
Við notum bílana sem kofa
Og Jón svo býður ,,góða nótt.
Það var svo á miðjum degi
réttast væri nú að ég þegi
tvær hjálparsveitir birtast þeim.
Þakklæti við sendum öllum
Þessum hraustu Sveitarkörlum
Og bestu kveðjur sendum heim.
Þetta voru góðu stundir lífsins frændi, þakka þér fyrir allt og allt.
Arinbjörn Þorbjörnsson.