Kristinn Siggeirsson fæddist 6. mars 1939 á Kirkjubæjarklaustri. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum 19. febrúar 2017.Foreldrar hans voru hjónin Siggeir Lárusson, f. 1903, d. 1984, og Soffía Kristinsdóttir, f. 1902, d. 1969. Systkini Kristins eru Guðmundur, f. 1932, Lárus, f. 1936, og Gyða Sigríður, f. 1941.

Eiginkona Kristins er Ólafía Jakobsdóttir, f. 1944. Foreldrar Ólafíu voru hjónin Jakob Bjarnason, f. 1910, d. 1997, og Róshildur Hávarðsdóttir, f. 1913, d. 1993. Börn Kristins og Ólafíu eru: 1) Jakob Kristinsson, f. 1963, hann á tvö börn. 2) Sigurður Kristinsson, f. 1964, maki Anna Harðardóttir, f. 1964, þau eiga þrjú börn. 3) Soffía Kristinsdóttir, f. 1966, maki Rúnar Þór Bjarnþórsson, f. 1963, þau eiga þrjú börn. 4) Gunnlaugur Kristinsson, f. 1968, maki Þórdís Högnadóttir, f. 1969, þau eiga tvö börn. Kristinn ólst upp hjá foreldrum sínum á Kirkjubæjarklaustri. Hann fór snemma að taka þátt í bústörfum á búi foreldra sinna. Hann tók þátt í fjallferðum á Síðumannaafrétti frá unga aldri og tileinkaði hann sér þá reynslu hinna eldri manna, ratvísi þeirra og þekkingu á landinu. Kristinn stundaði ýmis störf á yngri árum, hann fór vertíðir í Vestmannaeyjum, keyrði vöruflutningabíla, m.a. yfir vötnin á Skeiðarársandi, var mjólkurbílstjóri og vann á jarðýtu. Árið 1963 hóf Kristinn, ásamt eiginkonu sinni, búskap á Hörgslandi á Síðu. Landbúnaður varð síðan hans ævistarf. Hann var virkur björgunarsveitarmaður um árabil. Kristinn lét að mestu af búskap árið 2001 eftir alvarlegt vinnuslys, hann sinnti eftir sem áður ýmsum verkefnum sem tengjast bústörfum. Kristinn fór í fjallaferðir og var áhugamaður um landgræðslu og skógrækt. Eitt helsta áhugamál hans á seinni árum var að taka vídeómyndir af ýmsum viðburðum og framkvæmdum í sveitinni sem og á mannamótum innan fjölskyldu sem utan.

Útför Kristins fór fram frá Prestsbakkakirkju á Síðu, 25. febrúar 2017, klukkan 13.

Mínir vinir fara fjöld
feigðin þessa heimtar köld...

Þessar línur Bólu Hjálmars koma mér í hug við fráfall Kristins Siggeirssonar jafnaldra míns. Ekki er nema tæpt ár síðan  að minn góði vinur Lárus Valdimarsson kvaddi þessa jarðvist, en þeir voru bræðrasynir.

Kiddi eins og hann var jafnan kallaður var einstakur maður að svo mörgu leiti, óbilandi dugnaður og áræðni við hvað sem þurfti úrlausna við. Mörg held ég að dagsverkin væru ef þeim hefði verið haldið til haga sem hann kom að um sína daga án þess að laun væru greidd að verklokum. Hjálpsemi, ef einhver þurfti einhvers við, var einn af hans eiginleikum. Það er margs að minnast frá okkar samverustundum allt frá bernsku til lokadags. Ýmislegt var nú brallað á yngri árum og kannski ekki allt til fyrirmyndar. Þó held ég að þessi ungdóms -og bernskubrek hafi ekki valdið neinum skaða. Margar ferðir áttum við til fjalla ýmist tveir eða fleiri  í kindaleit eftir lögsöfn. Stundum kom það fyrir  að slíkar ferðir urðu æði slarksamar í krappasta skammdeginu, ef veður breyttist til hins verra svo varla sást fram fyrir húddið á Z5 og Z84 vegna snjókófs og skafrennings. Vissulega gat það komið fyrir að menn væru ekki alveg klárir á því hvar við værum staddir þegar engin kennileiti voru til að styðjast við. Við slíkar aðstæður kom eftirtekt og ratvísi Kidda hvað best í ljós. Það gat dugað að hann kæmi auga á stakan stein eða ómerkilegt rofabarð í sortanum þá dugði það til að rétta kúrsinn af væri hann orðin eittvað skakkur. Ég get ekki stillt mig um að minnast á eina eftirleitaferð með Kidda  ásamt fjórum öðrum félögum  sem allir  voru þaulvanir og kunnugir öllum leiðum. Oftast var það vani að leggja af stað úr byggð að kvöldi til að hafa nóttina fyrir sér og ná til einhvers ákveðins gististaðar. Í þessari ferð  var Það gamli góði kofinn í Blágiljum. Allt gekk samkvæmt áætlun inn fyrir fremri á. Úr því fór verulega að draga úr ferðahraða því skyggnið  var svo óljóst  að erfitt reyndist að greina nokkur kennileiti. Einhvern veginn klóruðum við okkur upp á skerin fyrir innan fremri á án þess að fara verulega útaf slóðanum ( rétt er að geta þess að ekki var búið að grafa veginn niður á þessum árum. ) Snjór var ekki mikill en alhvítt og sennilega hefur verið einhver hrímþoka sem truflaði skyggnið. Þó var bjart til lofts svo stjörnur sáust þar á meðal Pólstjarnan en hún var á sínum stað eins og alltaf.Ég held að það hafi verið Steingrímur föðurbróðir minn sem kom með þá tillögu að ef við ætluðum áfram inn af skerjum í því skyggni sem nú væri, sem var í rauninni ekki neitt, þá væri eina leiðin að taka mið af þeirri stjörnu. Var nú haldið af stað með Pólstjörnuna sem leiðarmerki afar rólega samt. Því vara mátti sig á steinum sem kynnu að verða á vegi okkar. Inn að Hellisá komum við á nákvæmlega réttum stað. Hvernig þeir fóru að þessu vinirnir leiðsögumaðurinn og stýrimaðurinn það vissum við ekki sem á eftir fórum. Við lötruðum á eftir þeim í hæfilegri fjarlægð til að ljósin frá mínum bíl trufluðu ekki þá einbeitingu sem þeir þurftu með.Önnur minning er mér minnisstæð er Kiddi kom til mín snemma morguns og vildi fá mig með sér inn í Blágil.  Ég vissi að hann hafði verið í einhverju kindasnatti  inn á afrétti deginum áður ásamt fleirrum og fundið einhverjar kindur. Það var dálítill snjór og því vel sporrækt. Kiddi hafði rekist á einhver för sem ekki pössuðu  við þau för sem þær kindur skyldu eftir sig sem höfðu verið handsamaðar . Aðrir sem voru með honum töldu að þetta væri allt eftir sömu kindurnar. Ég skynjaði það  strax á Kidda að þessi dularfullu spor yrði að kanna sem fyrst áður en veður og færð breyttust. Það hafði verið tiltölulega bjart og stillt undanfarna daga. Ég fór að ía að því við hann hvort við ættum ekki að hafa samband við Óla bróðir. Fá hann með okkur hann ætti góðan hund sem komið gæti að góðum notum í slíka ferð. Þá lyftist minn maður í sætinu þar sem við sátum við eldhúsborðið í Mörk og  sagði já ég hringi í Óla.  Allt gekk þetta eftir. Daginn eftir um leið og það fór að  njóta dagsbirtu erum við komnir á þær slóðir þar sem þessi för áttu að vera. Þar voru engin för að sjá. Það kom okkur svo sem ekkert á óvart því það hafði kulað dálítið um nóttina og öll för því horfin. Eftir stutta stund komum við auga á tvær kindur og þá hýrnaði nú heldur yfir mínum manni.Reyndust þetta vera tvö lömb og átti hann annað lambið sjálfur og ekki minnkaði  gleðin við það. Var nú haldið í kofann og tekið til við nestis og kaffidrykkju. Eftir smá stund kom hann með ferðastaup afa síns og við bræður skáluðum  þar við vin okkar
Kæri vinur nú er komið að leiðarlokum viljum við hjónin þakka þér allar ógleymanlegar  samverustundir. Vottum Ólafíu, börnum fjölskyldum þeirra, systkinum og öðrum ástvinum  innilega samúð

Saman lágu leiðirnar
því líkur ætíð svona.
Yfir háu heiðarnar
harma kæti og vona
(Páll  Ólafsson)

Júlíus Oddsson