Sigurður Hjálmar Gústafsson fæddist í Keflavík 20. desember 1959. Hann lést 27. desember 2019.
Foreldrar hans voru Gústaf Ólafsson, f. 3.1. 1934, d. 1.2. 2018, og Eygló Gísladóttir, f. 18.7. 1940, d. 21.9. 2018. Saman áttu þau fjögur börn. Systkini Sigurðar eru Anna, f. 29.12. 1957, maki Tryggvi Ingvason, f. 7.9. 1957. Eiga þau þrjú börn; Inga Hildur, f. 18.9. 1961. Hún á eitt barn; Dröfn, f. 22.12. 1965, d. 22.1. 2010. Maki Vilhjálmur Pétur Björgvinsson, f. 7.10. 1964, eiga þau þrjú börn; Gísli Jón, f. 28.12. 1969. Maki Bahija Zaami, f. 4.10. 1984. Gísli á tvö börn.
Sigurður útskrifaðist sem fiskiðnaðarmaður úr Fiskvinnsluskólanum 1979. Hann réð sig sem verkstjóra hjá fiskvinnslunni Tanga hf. á Vopnafirði 1979-1981. Hann flutti svo út í Garð 1981 þar sem hann réð sig sem yfirverkstjóra hjá Garðskaga hf. og vann þar til 1985. Hann gerðist svo vinnslustjóri og varð einn eigenda hjá Íslenskum gæðafiski hf. 1985-1995.
Hann giftist Rögnu Sveinbjörnsdóttur, f. 12.7. 1951, árið 1986. Saman áttu þau og ólu upp fimm börn. Björgvin, einkasonur, f. 15.5. 1985, maki Elísabet Hall Sölvadóttir, f. 2.10. 1985, börn þeirra eru Aþena Hall Þorkelsdóttir, f. 17.9. 2005, og Aðalheiður Irma Hall Björgvinsdóttir, f. 4.2. 2016. Bjarni, f. 23.5. 1978, maki Bryndís Björg Jónasdóttir, f. 27.6. 1979, börn þeirra eru Bergur Daði, f. 24.9. 2003, Birgitta Fanney, f. 2.2. 2007, Björgvin Ingi, f. 25.7. 2009, og Brynhildur Birta, f. 27.12. 2015. Ingibjörg Finndís, f. 30.10. 1974, maki Gísli Gíslason f. 10.9. 1972, börn þeirra eru Óskar, f. 18.2. 2002, Ragna María, f. 23.12. 2006, Guðjón Freyr, f. 13.4. 2010, og Davíð, f. 28.8. 2012. Þórður, f. 14.4. 1972, maki Kolbrún Ágústsdóttir, f. 28.3. 1979, börn þeirra eru Ívar Þór, f. 9.1. 2001, og Ágúst Guðjón, f. 9.11. 2010. Karl Sædal Sveinbjörnsson, f. 13.4. 1968, maki Sheila Jane Surbito, f. 12.1. 1971. Börn Aron Sædal, f. 22.3. 2001, og Ragna Sól, f. 14.7. 2005. Þau Ragna skildu 1996.
Sigurður var í stjórn Knattspyrnufélagsins Víðis í Garði og formaður í nokkur ár. Hann starfaði sem hreppsnefndarmaður og var formaður Alþýðuflokksfélagsins í Garði og á þeirra vegum í byggingarnefnd íþróttahúss og sundlaugar. Sigurður flutti til Úganda í Afríku þar sem hann vann og var hluthafi í frystihúsi frá 1995-2002. Hann var vinnslustjóri á frystitogurum á Nýfundnalandi frá 2002-2007. Hann réð sig svo sem verslunarstjóra hjá Dominos Pizza í Reykjanesbæ frá 2007-2008. Hann var þjónustustjóri hjá ISS þar sem hann var yfir þrifum á fyrirtækjum í matvælaiðnaði 2008 til 2013. Hann var vinnslustjóri hjá slægingarþjónustu Suðurnesja 2014. Hann hefur unnið við sjómennsku, beitningu, uppstokkun og afleysingar á sjó frá 2014-2017. Hann hefur verið mikið viðriðinn og aðstoðað við ýmislegt við rekstur Bitans hjá sonum sínum Björgvini og Bjarna síðan þeir keyptu þann rekstur 2018.
Sigurður verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju í dag, 9. janúar 2020, klukkan 13.
Ég held það hafi verið skrifað í skýin að þetta átti að fara svona og ég ákvað að hlífa börnunum mínum við pirringnum yfir áhyggjunum af þér. Alveg sama hversu oft hugsanirnar koma upp núna hvað ef og ef ég hefði ætla ég alltaf að eiga svör sem trompa þær spurningar. Því að henda út meðvirkninni fylgir annars konar ábyrgð sem erfitt er stíga fyrstu skrefin í átt að. Ég ætla mér að ná valdi á þeim skrefum og kenna börnunum mínum.
Þetta gæti verið gott áramótaheit, út með meðvirkni, talandi um áramótaheit þá ætla ég að ganga inn í árið 2020 með þakklæti. Við Inga systir vorum einmitt að ræða það hvað við erum þakklát fyrir síðustu tvö ár sem við systkinin áttum með þér. Þetta eru okkar bestu ár í langan tíma þegar ég horfi til baka. Þú kynntist börnunum okkar og sýndir þeim meiri áhuga en nokkru sinni fyrr. Ég er þakklátur fyrir að þau fengu að kynnast þér. Inn með þakklæti og út með meðvirkni árið 2020.
Minningar, er það ekki það sem minningargreinar eiga að snúast um? Mín fyrsta minning af þér er þegar ég hef vaknað einn laugardags- eða sunnudagsmorguninn, labba fram og sé þig og mömmu inni í stofu þar sem þið horfið á mig skælbrosandi, þú með höndina yfir öxlina á mömmu. Ég var ekki alls kostar sáttur og hleyp aftur inn í herbergið mitt hágrátandi. Ég man að þið komuð til að hugga mig litla snáðann, en ég man ekkert meira tengt þessum degi. Einnig man ég eftir því að labba með mömmu frá Garðbrautinni upp á Einholt í íbúðina þína. Þar inni var lítið um húsgögn, gott ef það var ekki bara sófi og hljómflutningsgræjur í stofunni. Man ekki eftir sjónvarpi. Hljómflutningsgræjurnar sem enduðu svo á Garðbrautinni þar sem þú lást á gólfinu með heyrnartólin á hausnum eftir vinnu eða um helgar og hlustaðir á Queen, Bowie eða Bubba með allt í botni. Takk fyrir gott tónlistaruppeldi pabbi minn, ég stalst ósjaldan í græjuskápinn og hlustaði á plötusafnið þitt. Hermdi eftir þér, tengdi heyrnartólin og lagðist á gólfið fyrir framan græjurnar og hlustaði á eðaltónlist.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna og lært að vinna undir harðri stjórn þinni á Brekkustígnum í Íslenskum gæðafiski. Ég var aðeins eitt sumar í bæjarvinnunni þar sem maður var að slæpast um með sóp eða málningarpensil. Sumrin hjá ykkur Dóra voru ekkert húmbúkk, við Pétur fengum alveg að finna fyrir því þar sem það var byrjað að vinna klukkan fimm á morgnana á sumrin og þá vorum við alltaf mættir klukkan fjögur því það tók um klukkutíma að leggja á hnífana og undirbúa daginn, við vorum mjög sjaldan komnir snemma heim. Við þurftum að vera á tánum hverju þurfti að pakka og hversu miklu hverju sinni. Ekki gekk að vinna sér of mikið í haginn þar sem stimpla þurfti dagsetningar á kassana. Ef við gleymdum okkur aðeins í virkjagerðinni með pappakössunum fór allt úr skorðum og þurftum við að gefa allt í botn til að hafa undan pökkunarteyminu. Nánast öllum kaffitímum á Brekkustígnum eyddi ég á skrifstofunni ykkar. Þar voru línurnar lagðar, þar gerðust hlutirnir. Gleymi aldrei þegar þú varst að skrafa við einhvern í símanum þar sem þú lást ekki á skoðunum þínum og lést óánægju þína virkilega í ljós, brúnaþungur í lok símtalsins lagðir þú símtólið á með mikilli ákveðni og starðir á mig, svo á svipstundu kom breitt bros og þú skelltir upp úr, þú náðir honum. Við snyrtilínuna gekk kjafturinn hraðar á kerlingum en vinnan eins og þú lýstir því, þangað til þú labbaðir í gegnum salinn. Með sama svip og brúnaþunga og í símtalinu kallaðir þú svo eitthvað uppbyggilegt yfir línuna og allt gekk hraðar. Þegar þú varst kominn í gegnum salinn sá maður brosið og þú skelltir upp úr. Agi var þitt fag. Þú varst aldrei ósanngjarn og jafnt gekk yfir alla. Líkt og þegar Dóri hringdi í mig og sagði að ég þyrfti ekkert að koma aftur því ég meldaði mig inn veikan á laugardegi. Ég hringdi í þig og bað þig að græja þennan misskilning. Þú baðst mig pent um að heyra bara í honum sjálfur og sjá hvort hann vildi ekki taka mig aftur. Ég heyrði svo af því seinna að þú rakst meira að segja þína eigin systur úr vinnu þar sem þú varst verkstjóri. Já manni fannst ekki alltaf sanngjarnar línurnar sem lagðar voru. En þær voru beinar og skýrar og ég er einmitt þakklátur fyrir það uppeldi sem ég fékk og nota óspart í minni vinnu, lífi og leik.
Fótboltinn var alltaf í hávegum hafður hjá okkur, ýmist þegar fjölskyldan og vinir komu um helgar í vöfflur og með því á Garðbrautina og horft var á enska boltann, eða þegar Víðir í Garði var að spila, sérstaklega á heimavelli. Þú varst formaður hjá Víði í Garði þar sem við fjölskyldan tókum þátt og vorum all-in ef það má segja það. Mamma var alltaf í sjoppunni og ég held ég eigi leikjametið yfir flesta leiki í röð sem boltastrákur á heimavelli. Í gegnum sjálfboðastarfið hjá Víði kynntumst við ótrúlega mörgu frábæru og flottu fólki og fyrir það er ég er mjög þakklátur.
Það hefur ekki verið tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður Liverpool en mér hefur þótt vænt um alla þá leiki sem við höfum horft á saman núna á seinni árum. Leikurinn sem þú fórst á með mér og Björgvini í janúar 2019 á Anfield er ógleymanlegur. Það að horfa á þig klökkan í stúkunni þegar You'll Never Walk Alone var tekið fyrir leik skilur eftir sig mynd sem ég mun aldrei gleyma. Verst þykir mér að fá ekki að njóta þess með þér þegar Liverpool lyftir bikarnum í maí. Hvíldu í friði elsku pabbi,
Bjarni Sigurðsson.