Sigurborg Sigurbjörnsdóttir fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá 5. ágúst 1929. Hún lést mánudaginn 24. júlí 2023. Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Snjólfsson félagsmálamaður og bóndi, fæddur í Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá 1893, dáinn 1980, og kona hans Gunnþóra Guttormsdóttir húsfreyja og bóndi, fædd á Ásgeirsstöðum í Eiðaþinghá 1895, dáin 1988. Systkini Sigurborgar voru eftirtalin, í aldursröð: Gunnlaugur bóndi, síðast búsettur á Egilsstöðum, Guttormur framkvæmdastjóri í Kópavogi, Sigurður bifreiðastjóri í Keflavík, Snæþór bóndi í Gilsárteigi, Vilhjálmur framkvæmdastjóri á Egilsstöðum, Magnús, Þórhalla, Guðfinna húsmóðir á Egilsstöðum, Halldóra sjúkraliði í Reykjavík, Sigurlaug húsmóðir á Egilsstöðum, Heiðrún, samfélagsþjálfi í Kópavogi, Benedikt pípulagningarmaður í Ástralíu og Ari, svæðisstjóri VÍS á Egilsstöðum. Hálfsystir Sigurborgar, samfeðra, var Aníta, húsmóðir á Hallfreðarstöðum í Tunguhreppi. Þau eru nú öll látin.

Sigurborg var ung send í fóstur í Hleinargarð til Guttorms Sigurðssonar og Sigurborgar Sigurðardóttur er þar bjuggu

Barnaskólaganga Sigurborgar var fjórir vetur, einn vetur á Eiðum og þrjú ár í farskólanum. Í Alþýðuskólanum á Eiðum var hún síðan einn vetur. Stundaði hún einnig nám við Húsmæðraskólann á Laugarvatni.

Sumarið 1950 var Sigurborg ráðskona í vegavinnu. Þar hitti hún fyrir Sölva Víking Aðalbjarnarson frá Unaósi í Hjaltastaðaþinghá. Þau gengu í hjónaband 6. júní 1951.

Lengst af var Sigurborg heimavinnandi húsmóðir, en hún tók einnig þátt í rekstri fyrirtækis þeirra hjóna, Vélaverkstæðisins Víkings, sem þau ráku frá árinu 1958 á meðan heilsan leyfði eða allt til ársins 1999. Hún vann einnig um tíma í vefnaðarvörudeildinni í Kaupfélaginu.

Sigurborg var mjög handlagin og mikil hannyrðakona. Blóma- og garðrækt hvers konar var hennar líf og yndi og bar garðurinn í Heiðmörk þess merki. Tók hún virkan þátt í starfi kvenfélagsins Bláklukku, saumaklúbba og spilaði bridge og félagsvist. Hún hafði góða söngrödd og söng með ýmsum kórum, lengst af með Kirkjukór Egilsstaðakirkju.

Sigurborg stundaði mikið útivist, leikfimi, göngur og sund og var heilsusamlegt líferni eitt af aðal áhugamálum hennar.

Hún ferðaðist víða og árin 1970 og 1972 bjó hún ásamt Sölva í Danmörku. Enn fóru þau til Danmerkur árið 1989 en þá til að stunda nám við Lýðháskóla.

Þau hjónin byggðu sér sælureit í Hjallaskógi þar sem þau undu sér löngum stundum.

Sigurborg og Sölvi eignuðust þrjú börn: 1) Sigurþór sem er kvæntur Rakel Pétursdóttur. Eiga þau tvo syni; Grímkel og Ívar Húna. 2) Unu Aðalbjörgu sem var gift Sighvati Hafsteinssyni, en hann lést árið 2008. Þau eiga fjögur börn:Sindra Snæ, Sölva Borgar, Sigurborgu Sif og Sigurjón Fjalar. 3) Heiðar Víking sem er kvæntur Björk Birgisdóttur Olsen. Þau eiga þrjú börn: Báru Rós, Maríu Lenu og Sölva Víking.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 3. ágúst 2023, kl. 13.

Meira á https://www.mbl.is/andlat



Það var ekki létt verk fyrir Sigurbjörn og Gunnþóru að byrja búskap á fyrstu áratugum síðustu aldar með tvær hendur tómar og sjá farborða stórri fjölskyldu og það lætur að líkum að Gilsárteigsheimilið var oft mannmargt. Sigurbjörn tók mikinn þátt í félagsmálum sveitar sinnar og sýslu. Þátttaka hans í félagslífi var óhjákvæmileg, vegna óvenjulegra og sérstæðra hæfileika. Hann var maður skarpgreindur og gjörhugull. Hann var fjölhæfur ræðumaður og var málflutningur hans ákaflega sérstæður og skemmtilegur. Var hann haldinn brennandi umbótavilja og gæddur ódrepandi baráttuþreki og kjarki. Vegna þeirra umsvifamiklu félagsstarfa dvaldist hann langdvölum frá heimilinu og þurfti Gunnþóra að sinna búrekstrinum utan húss jafnt og innan sem hún vann af mikilli eljusemi og óeigingirni. Börnin voru látin létta undir um leið og þau höfðu aldur og þroska til. Gunnþóra bar mikla umhyggju fyrir öllu sem lífsanda dregur og innrætti börnunum sínum þá lífsskoðun.

Mörg systkinanna voru send í fóstur til nágrannabæja til skemmri og lengri tíma. Sigurborg fór ekki varhluta af því og fór ung og óskírð í Hleinargarð til Guttorms Sigurðssonar og Sigurborgar Sigurðardóttur er þar bjuggu. Sagði hún frá því að upphafið að dvöl sinni í Hleinargarði hafi verið það að hún hafi sem barn dottið í bröttum stiga í gamla íbúðarhúsinu í Gilsárteigi og lærbrotnað. Tóku þau hjón henni ákaflega vel og talaði Sigurborg, sem fékk síðar nafnið sitt frá nöfnu sinni Sigurðardóttur, ætíð með mikilli hlýju um þau hjónin.

Barnaskólaganga Sigurborgar var fjórir vetur, einn vetur á Eiðum og þrjú ár í farskólanum í Mýnesi þar sem dvalið var á heimilinu í nokkra mánuði í senn á veturna. Í Alþýðuskólanum á Eiðum var hún síðan einn vetur.

Sumarið 1950 var Sigurborg ráðskona í vegavinnu. Þar hitti hún fyrir Sölva Víking Aðalbjarnarson frá Unaósi í Hjaltastaðaþinghá, en hann var ýtumaður þetta sumar. Þau höfðu sem unglingar hist á sundnámskeiði á Eiðum og eins á þorrablóti á Kóreksstöðum í Útmannasveit fyrr á árinu. Þau voru því ekki ókunnug og höfðu greinilega gefið hvort öðru auga. En þarna í vegavinnunni voru örlögin ráðin. Kynni þeirra leiddu til nánari samvista sem stóðu í rúm 70 ár.

Veturinn eftir settust þau á skólabekk, hún í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni en hann í Iðnskólanum í Reykjavík. Í upphafi árs 1951 opinberuðu þau trúlofun sína og gengu í hjónaband 6. júní það ár. Það var henni ofarlega í minni að vinnuveitandi Sölva hafði forgöngu með það að útvega ungu hjónunum föt við hæfi úr leikmunasafni Þjóðleikhússins. Þá um sumarið hófu þau búskap á Egilsstöðum og byrja að byggja Heiðmörk árið 1953. Þá bjuggu 148 manns í þorpinu við Ásinn.

Lengst af var Sigurborg heimavinnandi húsmóðir, en hún tók einnig þátt í rekstri fyrirtækis þeirra hjóna, Vélaverkstæðisins Víkings, sem þau ráku frá árinu 1958 á meðan heilsan leyfði eða allt til ársins 1999. Sá hún um bókhald fyrirtækisins ásamt innheimtu reikninga. Hún vann einnig um tíma í vefnaðarvörudeildinni í Kaupfélaginu.

Sigurborg var mjög handlagin og mikil hannyrðakona. Blóma- og garðrækt hvers konar var hennar líf og yndi og bar garðurinn í Heiðmörk þess merki. Fjölda framandi blómategunda var þar að finna og má nefna að þar voru nokkrar tegundir sem hún ræktaði upp af fræjum sem hún fékk send frá Danmörku, þar á meðal rauða lúpínu sem vakti athygli. Í mörg ár ræktaði hún aloa vera-jurt sem hún notaði til að búa til smyrsl til að bera á sár. Tók hún virkan þátt í starfi kvenfélagsins Bláklukku, saumaklúbbum og spilaði bridge og félagsvist. Hún hafði góða söngrödd og söng með ýmsum kórum, lengst af með Kirkjukór Egilsstaðakirkju. Sigurborg var fyrsta hárgreiðslukonan á Egilsstöðum og var oft margt um manninn í Heiðmörk í þeim erindagjörðum.

Ekki er hægt að fjalla um Sigurborgu án þess að nefna hann Sölva í sömu andrá, en þau voru ákaflega samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur; þau voru eitt. Tóku þau mikinn þátt í félagslífinu hér á staðnum. Þau höfðu yndi af dansi, dönsuðu saman í gegn um lífið. Tóku þau þátt í þjóðdönsum með danshópnum Fiðrildunum þar sem þau voru stofnfélagar.

Þau hjónin stunduðu mikið útivist, leikfimi, göngur og sund. Var það að frumkvæði Sigurborgar og tók það hana langan tíma að sannfæra Sölva um að hann þyrfti að hreyfa sig eftir annasaman dag á verkstæðinu en svo fór að heilsusamlegt líferni varð eitt af aðaláhugamálum þeirra.

Þau ferðuðust víða og árið 1970 flytjast þau með Heiðar til Danmerkur þar sem þau bjuggu við frumstæðar aðstæður í strandhúsi þar sem litið var um þægindi. Heim komu þau eftir eitt ár en stóðu stutt við því aftur fóru þau til Danmerkur árið 1972. Enn fóru þau til Danmerkur árið 1989 en þá til að stunda nám við lýðháskóla. Þar rifjuðu þau upp dönskuna og ræktaði Sigurborg býflugur á meðan Sölvi lagði stund á ljósmyndun. Hugsuðu þau til Danmerkuráranna með hlýju en þar eignuðust þau góða vini meðal heimamanna.

Þau byggðu sér sælureit í Hjallaskógi þar sem þau undu sér löngum stundum.

Sigurborg og Sölvi eignuðust þrjú börn: Sigurþór sem er kvæntur Rakel Pétursdóttur. Eiga þau tvo syni; Grímkel og Ívar Húna. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Unu Aðalbjörgu sem var gift Sighvati Hafsteinssyni, en hann lést árið 2008. Þau eiga fjögur börn: Sindra Snæ, Sölva Borgar, Sigurborgu Sif og Sigurjón Fjalar. Hún býr í Mosfellsbæ. Heiðar Víking sem er kvæntur Björk Birgisdóttur Olsen. Þau eiga þrjú börn: Báru Rós, Maríu Lenu og Sölva Víking. Þau búa á Egilsstöðum.

Lífsganga Sigurborgar var farsæl. Átti Sölvi stóran þátt í því, enda voru þau alla tíð sérlega samrýnd. Þau voru vinnusöm með afbrigðum og ósérhlífin og féll þeim sjaldan verk úr hendi.

Að lokum er lítið ljóð eftir Jónbjörgu Eyjólfsdóttur sem Sigurborg hafði dálæti á og sendi mér á erfiðum tímamótum í lífi mínu:

Sofðu litla ljúfan smá,
legg ég þig í rúmið,
nóttin seiðir blund á brá
blómin sofa jörðu á,
sængina þína sveipar bláleitt húmið.

Ég skal syngja sönginn minn
svo þig væran dreymi,
klappa mjúkt á kollinn þinn
krossmark gera á svæfilinn,
biðja svo hljótt að Guð þig ætíð geymi.

Blessuð veri minning Sigurborgar Sigurbjörnsdóttur.

Ólafur Arason.