Ólafur Hróbjartsson fæddist á Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum 15. janúar 1949. Hann lést á líknardeild Landspítalans 14. október 2023 umvafinn ástvinum sínum.


Foreldrar hans voru Hróbjartur Pétursson bóndi á Lambafelli, f. 20.6. 1907, d. 10.2. 1992, og Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 21.3. 1908, d. 27.4. 2000.

Systkini hans eru Kristín, f. 18.6. 1935, búsett í Reykjavík, Guðsteinn Pétur, f. 26.6. 1937, búsettur í Hafnarfirði, Þór, f. 27.11. 1940, d. 18.11. 2014, Einar, f. 6.3. 1942, búsettur á Hellu, og Unnur, f. 22.11. 1946, búsett í Reykjavík.

Ólafur kvæntist eiginkonu sinni, Kristínu Guðrúnu Geirsdóttur, f. 26.7. 1951, þann 30. desember 1972. Kristín er dóttir Geirs Tryggvasonar, f. 24.6. 1917, d. 11.8. 2001, bílstjóra og bónda í Steinum undir Austur-Eyjafjöllum, og Þórönnu Finnbogadóttur, frá Presthúsum í Mýrdal, f. 18.6. 1927, d. 14.1. 2006, húsfreyju.

Börn Ólafs og Kristínar eru: 1) Þóranna, f. 19.10. 1970, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, gift Ólafi Erni Jónssyni rafmagnsverkfræðingi og eiga þau þrjú börn, Kristínu Evu, Jón Fannar og Birgi Þór. 2) Magnús Torfi, f. 15.9. 1975, bílasmiður í Reykjavík og á hann fjögur börn, Ívar Óla, Thelmu Björk, Magnús Þór og Eddu Kristínu. 3) Hjördís Björk, f. 1.11. 1980, lyfsöluleyfishafi í Hveragerði, gift Sigurði H. Markússyni jarðefnafræðingi og eiga þau þrjú börn, Júlíu Dís, Sóldísi Evu og Alex Mána. 4) Daði Freyr, f. 19.5. 1984, iðnaðarverkfræðingur í Reykjavík, kvæntur Elínborgu Kristjánsdóttur lyfsöluleyfishafa og eiga þau tvo syni, Hrafnkel Frey og Ólaf Björgvin.

Ólafur stundaði nám við Héraðsskólann á Skógum og lauk þaðan gagnfræðaprófi 1965. Hann stundaði bústörf á bernskuheimili sínu til 1971 að undanskildum örfáum mánuðum sem hann reri á fiskibát frá Vestmannaeyjum. Hann flutti þá að Hellu á Rangárvöllum og hóf þar störf hjá Glerverksmiðjunni Samverki hf. þar sem hann starfaði alla sína tíð, fyrst á Hellu og síðar í Reykjavík þar sem hann starfaði sem sölustjóri. Meðfram störfum sínum fyrir Samverk á Hellu starfaði Ólafur einnig sem slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu.

Ólafur var félagi í JC – Rangárþingi um skeið og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var félagi í Rotaryklúbbi Rangæinga, sat í stjórn klúbbsins og var þar m.a. gjaldkeri og forseti um skeið. Ólafur sat um tíma í hreppsnefnd Rangárþings ytra en eitt af baráttumálum hans þar var bygging íþróttahúss sem síðar reis íbúum bæjarins til heilla.

Skömmu áður en Ólafur og Kristín fluttu frá Hellu hófu þau smíði á sumarbústað á Gaddstaðaflötum skammt frá Hellu. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur og sér í lagi eftir að Ólafur hætti að vinna varð bústaðurinn þeirra annað heimili.

Ólafur verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 27. október 2023, kl. 11.

Jæja, þá er hann Óli vinur minn dáinn. Ég vissi hvað var í gangi um leið og ég sá að Tommi, vinnufélagi okkar Óla, hafði reynt að hringja. Þetta hafði legið í loftinu í nokkurn tíma. Þó að maður hafi haldið í vonina þá lagði bölvað krabbameinið hann að lokum. Óli bar sig alltaf vel, við vorum ekkert að velta okkur upp úr þessu þegar við töluðum saman. Það gerðum við heldur ekki þegar við töluðum saman í síðasta sinn. Hann var augljóslega lúinn en merkilega brattur eins og hans var venja. Við skiptumst á fréttum, töluðum um veiði og hlógum að einhverri vitleysu eins og við vorum vanir. Það var alltaf gaman að heyra í Óla.

Ég kynntist Óla þegar við unnum saman hjá Samverk. Mest unnum við saman við mælingar en líka við uppsetningu, aðallega þó í stærri og flóknari verkefnum. Óli var búinn að vera í þessu lengi og kunni þetta upp á tíu. Það var gott að vinna með honum. Hann hafði góða nærveru, var laginn og sérstaklega hjálplegur.

Við Óli náðum vel saman og áttum margt sameiginlegt þó að hann væri lítið eitt eldri en ég. Hann kunni margar sögur og hafði sérlega gaman af vísum. Hann fékkst við margt og var fjölmargt til lista lagt eins og smíðar og garðrækt svo fátt eitt sé nefnt. Það var þó veiðin sem dró okkur saman og eitt haustið bauð hann mér með sér inn í Veiðivötn. Það má segja að það hafi verið upphafið að okkar vináttu og merkilegt nokk þá gerðist það eiginlega á miðjum gatnamótum. Við vorum á leið heim eftir vinnu einn daginn, hvor á sínum bílnum, þegar Óli snarar sér skyndilega út í kant, skrúfar niður rúðuna og kallar á mig yfir götuna, og alla umferðina, hvort ég vilji ekki bara koma með sér inn eftir. Það var aldrei spurning, auðvitað þáði ég það. Tveimur dögum síðar vorum við á leiðinni inn í vötn. Ég sá aðra hlið á Óla í þessum ferðum. Áhugi hans á fólki, sögum, kveðskap, náttúrunni og veiði kom vel í ljós. Hann virtist njóta hverrar mínútu og að mörgu leyti fannst mér þetta vera hans náttúrulega umhverfi. Þær voru ófáar ferðirnar sem Óli fór inn í vötn og hann var hokinn af áratuga reynslu. Eins og við er að búast þegar kemur að veiði vorum við ekki alltaf sammála um hvar ætti að leggja netin og þótt þetta væri lýjandi vinna var maður farinn að hlakka til næstu ferðar að ári um leið og maður kom heim.

Stundum fannst mér minn maður heldur vanafastur og hreinlega erfiður viðureignar í þessum ferðum en það kom þó hvergi betur í ljós en þegar maður ætlaði að fá að gera eitthvað fyrir hann. Það var eiginlega alveg ómögulegt. Fyrir manninn sem sjálfur vildi allt fyrir alla gera. Það var líka hans háttur í veiðiferðunum. Það var með herkjum að maður fékk að borga fyrir sinn hlut í leyfinu. Hann deildi með okkur kostinum, beitunni, aflanum og harðneitaði mér að borga fyrir eldsneytið. Ég sá nú samt við honum og ef ég var nógu snöggur náði ég stundum að borga áfyllinguna áður en hann stoppaði bílinn (Sigurþór) við dæluna. Ef ekki, þá faldi ég aura í bílnum og sagði honum frá því þegar við kvöddumst. Honum var sko ekki skemmt en bauð mér nú samt alltaf með aftur, blessaður karlinn.

Fyrir utan síðustu árin, þegar hann lagði sig á milli vitjana, man ég ekki eftir að hafa séð Óla falla verk úr hendi. Þegar kom að vinnu fékk maður að hjálpa til en hann stóð aldrei hjá og fylgdist með. Hann var alltaf kominn á fullt með manni, sama hvað það var. Hann var alltaf að en hann var ekki bara duglegur og iðinn, hann var líka sérlega handlaginn og séður. Það sást best uppi í sumarbústað hjá honum og Kristínu. Þar sá ég aldrei hálfklárað verk en í hverri heimsókn sá ég eitthvað nýtt, einhverja listasmíð. Hann hafði gaman af því að sýna mér hvað hann hafði verið að bardúsa og það var mikið spekúlerað en hann gerði aldrei mikið úr þessu vildi ekkert að maður væri að hrósa honum neitt. Það var alltaf afgreitt snarlega með því að bjóða manni meira kaffi og skipta um umræðuefni.

Ég var stundum svo heppinn að fá gistingu í bústaðnum í kringum veiðiferðirnar okkar Óla. Sérstaklega þótti mér gaman að hitta þau Kristínu saman. Það var eftirtektarvert hvað þau voru samhent og samrýnd. Maður kom aldrei að tómum kofunum. Það var mikið spjallað og hlegið og alltaf tekið sérstaklega vel á móti manni. Það var upphefð að sækja þau heim. Þetta voru góðar stundir sem mér þykir afar vænt um.

Ég sendi Kristínu, krökkunum og öðrum aðstandendum Óla innilegar samúðarkveðjur. Fyrir vináttuna og minningarnar verð ég ævinlega þakklátur.

Með vinsemd og virðingu,

Jón Þorgilsson.