Skýra verður „eðlilegt skólahald“

Stjórnvöld hafa gefið út að skólastarf í leik- og grunnskólum verði „með eðlilegum hætti“ frá og með 4. maí næstkomandi, en áfram verða í gildi samkomubann, sem þá mun miðast við 50 einstaklinga, og tveggja metra reglan svokallaða.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir það vafalaust leggjast vel í alla að skólar geti brátt snúið aftur til síns fyrra forms. Það sé þó afar mikilvægt að nýta vel þær vikur sem eru til stefnu þar sem fjölmörgum spurningum sé enn ósvarað.

„Hvað felst í þessu; eðlilegt skólastarf. Í eðlilegu skólastarfi koma oftar en ekki 50 einstaklingar eða fleiri saman. Svo eru uppi spurningar er snerta sóttvarnir, sem áfram hljóta að gegna mikilvægu hlutverki. Það þarf því að fá svör við þessum spurningum sem og öðrum svo við séum tilbúin þegar loks kemur að því að opna skólana aftur,“ segir Þorgerður Laufey í samtali við Morgunblaðið.