Skipið sem stóð af sér tvær kjarnaárásir

USS Nevada á siglingu undan ströndum Bandaríkjanna 17. september 1944.
USS Nevada á siglingu undan ströndum Bandaríkjanna 17. september 1944. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hópur rannsakenda hefur nú fundið flak bandaríska orrustuskipsins USS Nevada undan ströndum Havaí. Þar hefur það legið á sjávarbotni frá árinu 1948. Um tíma var sagt að skip þetta væri ósökkvandi, enda stóð það af sér tvær heimsstyrjaldir og tvær kjarnavopnaárásir.

Er það fjölmiðill bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Stars and Stripes, sem greinir frá þessu. Kemur þar fram að einkafyrirtækin Search Inc. og Ocean Infinity hafi í samstarfi fundið USS Nevada á rúmlega fjögurra kílómetra dýpi um 120 kílómetra suðvestur af höfuðstaðnum Honolúlú. Skipið fannst með hjálp djúpsjávarkafbáta vopnuðum myndavélum, en tilkynnt var um fundinn í gær, mánudaginn 11. maí 2020.