Afgerandi Rosé frá meistara Pol Roger

Það var ungur maður í bænum Af sem varð að finna leiðir til að framfleyta fjölskyldu sinni. Faðir hans hafði misst heilsuna ungur maður og allt var í uppnámi. Nærtækast var að stofna kampavínshús enda bærinn í hjarta héraðsins sem hið glæsta kampavín er kennt við.

Þetta var um miðja 19. öldina og fyrsta flaskan seldist 1849. Tveimur árum síðar flutti ungi maðurinn fyrirtækið, sem hann nefndi eftir sjálfum sér, til Epernay og þar hafa höfuðstöðvar þess verið æ síðan.

Hann hafði viðskiptavit og setti fljótt stefnuna á þurrt kampavín með talsvert minna sykurmagni en gjarnan tíðkaðist á þessum tíma. En af hverju? Var það einvörðungu vegna hans eigin smekks eða réðu önnur sjónarmið för. Hvort sem það var vissi Pol Roger að Bretar kunnu að meta minna sykrað kampavín og þar var sterkur markaður og stöðugri en sá rússneski.