Einstök harmsaga á Þingvöllum

Bruninn Ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum í ljósum logum aðfaranótt 10. júlí …
Bruninn Ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum í ljósum logum aðfaranótt 10. júlí 1970. Hann brann til grunna á rétt um einni klukkustund. Ljósmynd/Sakadómur Reykjavíkur/Jón Eiríksson

Það er fimmtudagur 9. júlí 1970. Klukkan er að ganga þrjú eftir hádegi. Fyrir utan reisulegt einbýlishús í Háuhlíð 14 í Reykjavík bíður Haraldur Guðmundsson bílstjóri eftir Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, sem þar býr. Hann er á leið til Þingvalla með konu sinni, Sigríði Björnsdóttur, og ungum dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Þau ætla að dvelja í bústað forsætisráðherra í þjóðgarðinum eina nótt, en hefja ferðalag um Snæfellsnes og í Dali snemma morguns daginn eftir að sækja héraðsmót sjálfstæðismanna í sýslunum. Bjarni hefur í byrjun júlí bundið það fastmælum við vin sinn Ásgeir Pétursson sýslumann að heimsækja hann í Borgarnes þennan dag og gista á heimili hans um nóttina áður en þeir fara á héraðsmótin. En nokkrum dögum seinna hefur hann samband aftur og hefur þá breytt áætlun sinni. Hann ætlar fyrst til Þingvalla, gista þar, en koma svo yfir Uxahryggi til Borgarness næsta dag.