Árið hefur verið erfitt á Ítalíu og Spáni

"Það er viðbúið að ef við erum á leið inn í kreppu þá muni fólk fara varlega með peningana" segir Ásbjörn. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Sala á léttsöltuðum fiski hefur dregist saman en hefðbundinn saltfiskur heldur stöðu sinni nokkuð vel. Verði kórónuveirukreppan langvarandi má vænta minni eftirspurnar eftir grásleppuhrognum.

Það sem af er þessu ári hafa orðið miklar sviptingar á mikilvægustu mörkuðum Fiskkaupa. Fyrirtækinu hefur þó gengið ágætlega að aðlagast breyttum aðstæðum og hjálpar þar hvað íslenskar sjávarafurðir hafa sterkt orðspor fyrir gæði.

Fiskkaup er með fiskvinnslu sína á Fiskislóð í Reykjavík og gerir út þrjá báta: Kristrún RE-177 hefur einkum verið notuð til grálúðuveiða undanfarin ár en Jón Ásbjörnsson RE-777 er línubátur og veiðir einkum þorsk og annan bolfisk. Loks er Halla Daníelsdóttir RE-770 sem er aðallega gerð út á vorin til grásleppuveiða.