Fuglarnir létu sér ekki bregða

Skarfasker Ysti hluti nýju landfyllingarinnar við Klettagarða nær langleiðina að …
Skarfasker Ysti hluti nýju landfyllingarinnar við Klettagarða nær langleiðina að skerjunum. Þarna hefur fólk gott tækifæri til skoða fuglana í návígi. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Gerð landfyllingar við Klettagarða við Laugarnes í Reykjavík lauk í sumar. Á framkvæmdatímanum var fuglalíf á svæðinu vaktað og fuglar taldir.

„Meðan talningar fóru fram var verið að vinna við landfyllinguna og komu vörubílar með grjót og efni sem þeir sturtuðu og vinnuvélar ýttu og færðu efnið til. Það var greinilegt að fuglarnir voru orðnir vanir framkvæmdunum því skarfar og máfar sem sátu í skerinu norður af landfyllingunni kipptu sér ekkert upp við það þótt vörubíll sturtaði grjóti skammt frá með tilheyrandi látum,“ segir í skýrslu Verkís, sem kynnt var á stjórnarfundi Faxaflóahafna fyrir helgi. Verkís tók að sér verkefnið í fyrrahaust. Fuglar voru taldir á strandlengjunni við framkvæmdasvæðið mánaðarlega frá síðustu áramótum fram í júní.