Svo mörg spennandi tækifæri

„En þetta var alveg hræðilegt mál og í raun er …
„En þetta var alveg hræðilegt mál og í raun er furðulegt að við höfum ekki farið á hausinn,“ segir Elvar um málareksturinn vegna Launaskila. Morgunblaðið/Arnþór Birkisson

Þó að hugbúnaðarfyrirtækið Reon fái nær allar tekjur sínar fyrir þróun og viðhald hugbúnaðar, og vinni fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, hefur það mörg önnur járn í eldinum. Hugmyndin á bak við félagið er óvenjuleg og framtíðin gæti orðið verulega spennandi.

Eftir að blaðamaður ViðskiptaMoggans hafði heilsað Elvari Erni Þormar, framkvæmdastjóra og stofnanda Reon, og beðið um samtal, spurði Elvar á móti hvort blaðamaður hefði þekkt til Reon áður en hann tók upp símann og hringdi. Undirritaður varð að viðurkenna að hann hafði fátt vitað um félagið. „Við höfum ekki markaðssett okkur mikið. Okkar þjónusta hefur spurst út. Jafnvel þó þú hafir nær aldrei heyrt um okkur þá erum við orðin eitt stærsta sjálfstæða hugbúnaðarhúsið á Íslandi, fyrir utan risana Advania og Origo,“ segir Elvar.