Segir okkur svo mikið um löngu horfinn tíma

Líkið í gröfinni telur Anja Roth Niemi fornleifafræðingur að hafi …
Líkið í gröfinni telur Anja Roth Niemi fornleifafræðingur að hafi verið lagt til hinstu hvílu einhvern tímann á árabilinu 700 til 900 og er það svo vel varðveitt að nánast telst með ólíkindum, en það má þakka kalkríkum skeljasandinum á Gimsøya í Lofoten. Ljósmynd/Norges arktiske universitetsmuseum

Segja má að skammt sé stórra högga á milli í norskum fornleifarannsóknum þessi dægrin. Nýlega fjallaði Morgunblaðið um sjaldgæft timburgrafhýsi í Þrændalögum, rúmlega þúsund ára gamalt, en nú ber svo við að fornleifafræðingar við Háskólasafnið í Tromsø, Norges arktiske universitetsmuseum – UiT  eins og það heitir, undir stjórn Önju Roth Niemi fornleifafræðings, hafa fundið 1.200 ára gamlar líkamsleifar, svo vel varðveittar að einsdæmi má kalla, að minnsta kosti í Noregi.

Fundarstaðurinn er eyja við Lofoten í Norður-Noregi, Gimsøya, þar sem fornleifafræðingar frá safninu hafa verið við leit og rannsóknir um nokkurra mánaða skeið, eftir því sem Niemi greinir frá í samtali við Morgunblaðið.