Bakslag í baráttu Japans við veiruna

Smit og dauðsföll vegna kórónuveirunnar hafa verið með minnsta móti …
Smit og dauðsföll vegna kórónuveirunnar hafa verið með minnsta móti þrátt fyrir mjög hófstilltar aðgerðir af hálfu japanskra stjórnvalda. Í nóvember tók þó að halla undan fæti. AFP

Það verður ekki um það deilt að Japan hefur náð undraverðum árangri í baráttunni við kórónuveiruna. Höfðu þó margir spáð því að veiran myndi skella á landinu með miklum látum: Rétt rúmlega 30% landsmanna eru yfir 65 ára aldri – nærri tvöfalt hærra hlutfall en á Íslandi – og kraðakið mikið í japönskum borgum þar sem þjappa þarf fólki í neðanjarðarlestarnar á háannatíma. Í ofanálag er Japan í túnfæti Kína þar sem faraldurinn hófst. Hefði því mátt vænta þess að veiran myndi breiðast hratt út og valda Japönum miklum óskunda.

Samt eru dauðsföll vegna kórónuveiru með minnsta móti í Japan. Þar hefur veiran aðeins fellt 2.749 en í landinu búa rösklega 126 milljón manns. Umreiknað miðað við íbúafjölda jafngildir þetta því að á Íslandi hefðu aðeins orðið 8 dauðsföll en þegar þetta er skrifað hefur veiran orðið 28 manns að bana á Íslandi. Þetta hefur Japan tekist án þess að grípa til mjög strangra smitvarnaaðgerða.