Árásarbelgirnir hans Churchills

Myndin sýnir þegar verið er að senda loftbelgi til árásarferða …
Myndin sýnir þegar verið er að senda loftbelgi til árásarferða inn á meginland Evrópu frá Bretlandi. Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Bretlands

Aðfaranótt 18. september 1940 gerði leiðindaveður yfir Bretlandseyjum og losnaði við það nokkur fjöldi loftbelgja í eigu hersins úr akkerisfestu sinni. Belgirnir fóru með veðri og vindum yfir Norðursjó og rákust sumir þeirra utan í rafmagnslínur í Svíþjóð og Danmörku og trufluðu lestarsamgöngur og raforkuflutning. Einn þeirra flaug utan í og braut útsendingarmastur sænskrar útvarpsstöðvar. Minnst fimm komust alla leið til Finnlands. Fregnir af skemmdum og glundroða vegna belgjanna náðu inn á borð stríðsráðuneytisins í Bretlandi og ákvað forsætisráðherrann Winston Churchill að láta kanna hvort og þá hvernig hægt yrði að beita loftbelgjum sem vopnum gegn Þjóðverjum. Var þetta upphafið að því sem kallað hefur verið ein hagkvæmasta hernaðaraðgerð stríðsins.