Ég var gefinn fyrir ævintýri

Reynir Ragnarsson ævintýramaður.
Reynir Ragnarsson ævintýramaður. Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir

Leiðin lá austur í Vík í Mýrdal til fundar við Reyni Ragnarsson, ævintýramann með meiru. Hann er reffilegur karl, á þrjú ár í nírætt en er sprækur og heilsuhraustur og enn með blik í auga. Reynir er í óðaönn að klára úr skyrdollu þegar blaðamann ber að garði. Hann hellir vel af rjóma yfir skyrið og býður upp á kaffi. Við færum okkur svo yfir í betri stofu þar sem Reynir kemur sér vel fyrir í góðum grænum „Lazy boy“-stól. Þar er gott að rifja upp sögur, en af þeim á Reynir nóg. Hann hefur marga fjöruna sopið og stundum í bókstaflegri merkingu, en ævintýrin sem Reynir hefur lent í í lofti, á láði og legi eru ófá. Eins og kötturinn virðist Reynir eiga sér níu líf og er líklega búinn með þau allnokkur.