Bretarnir sem gengu í sveitir SS

Tveir breskir SS-menn sjást fyrir miðri mynd ásamt tveimur Þjóðverjum. …
Tveir breskir SS-menn sjást fyrir miðri mynd ásamt tveimur Þjóðverjum. Sá til vinstri heitir Kenneth Berry en hinn Alfred Minchin. Hinn síðarnefndi fékk 7 ára fangelsisdóm fyrir föðurlandssvik. Myndin er tekin í apríl 1944. Ljósmynd/Bundesarchiv

Þýska stríðsvélin stundaði það í seinna stríði að fá erlenda einstaklinga til liðs við sig, fólk sem tilheyrði gjarnan hernumdum ríkjum og svæðum eða kom úr fangabúðum. Þannig má nefna að þúsundir manna frá Danmörku, Noregi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu og Rússlandi gengu til liðs við þýska herinn Wehrmacht og sveitir Schutzstaffel, eða SS. Einhverjir þessara manna gengu til liðs við Þriðja ríkið því þeir aðhylltust fasisma, aðrir vegna mikillar andúðar sinnar á kommúnisma og enn aðrir til þess eins að losna undan slæmum aðbúnaði í fangabúðum. Öllu óþekktari er þó saga þeirra Breta sem gengu til liðs við SS og mynduðu það sem sagnfræðingar hafa sumir kallað fámennustu og ósigursælustu útlendingahersveit Þýskalands.