„Glæpur sem aldrei má gleymast“

Um þessar mundir eru tuttugu ár frá því að talíbanar sprengdu í loft upp fornar búddastyttur í Bamiyan-dal, sem höfðu staðið þar og vakað yfir dalnum frá því á 5. öld e.Kr. hið minnsta. Enn þann dag í dag er litið á eyðileggingu styttnanna sem einn mesta glæp sem framinn hefur verið á fornleifum, enda ómetanleg menningarverðmæti sem þarna fóru forgörðum.

Þá vakti eyðileggingin athygli heimsbyggðarinnar á talíbönum og öfgatrú hinna nýju valdhafa í Afganistan, örfáum mánuðum áður en hryðjuverkin í New York og Washington kölluðu innrás Bandaríkjamanna yfir landið og upphaf átaka, sem standa enn.