Áhyggjur af langtímaatvinnuleysi
Stórhækkun á fasteignamati er í senn merki um efnahagsþróun og getur haft víðtæk áhrif á hana. Dr. Ásgeir Jónsson þekkir vel til þeirra mála, þar sem hann var formaður yfirfasteignamatsnefndar áður en hann varð seðlabankastjóri, svo það lá beint við að spyrja hann út í það.
„Þarna er eitt og annað sem er að gerast. Í fyrsta lagi sjást hér áhrif þess að breytt hefur verið um aðferðir við að meta fasteignamatið. Hér áður var algengt að miða við sögulegan byggingarkostnað eða einhverjar aðrar aðferðir. Það var því yfirleitt regla að fasteignamat var mun lægra en markaðsvirði – það átti sérstaklega við um gömul hús í miðbænum. Nú hafa þessar matsaðferðir verið uppfærðar af Þjóðskrá og fasteignamatið fer nærri markaðsvirði – og fylgir því verðhreyfingum markaðarins. Til að mynda er fasteignamat íbúða metið út frá kaupsamningum. Virði atvinnuhúsnæðis er hins vegar metið út frá svokölluðu tekjumatslíkani eða út frá leiguverði, sem er tiltölulega nýleg aðferð.