Ætla í gegnum hljóðmúrinn á ný

Blake Scholl forstjóri Boom segir sögu Concorde ekki lokið.
Blake Scholl forstjóri Boom segir sögu Concorde ekki lokið. AFP

Bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti í síðustu viku að það áformaði að kaupa fimmtán hljóðfráar farþegaþotur af sprotafyrirtækinu Boom Supersonic sem ætlar að framleiða slíkar flugvélar. Segja fyrirtækin að stefnt sé að því að taka fyrstu vélarnar í notkun árið 2029.

Hljóðfráar farþegaþotur hafa ekki verið notaðar frá árinu 2003 þegar síðustu Concorde-þotunni var lagt.

Samningur United og Boom er um að flugfélagið kaupi flugvélar af gerðinni Overture þegar þær uppfylla skilyrði United um öryggi, virkni og sjálfbærni, að því er kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum.