Brekkur fram undan en vel undir ferðina búin

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Það er furðurólegt andrúmsloftið í höfuðstöðvum Icelandair, þegar blaðamann ber þar að garði til þess að eiga viðtal við Boga Nils Bogason, forstjóra félagsins. Í lok júlí og snemma morguns eru dagarnir afslappaðri en oftast endranær. Margir hafa tekið sér langþráð sumarfrí eftir annasama mánuði síðustu misserin.

Það eykur enn á kyrrðina að enn líða nokkrar vikur uns Icelandair Hotels, sem reyndar eru komin undan handarjaðri Icelandair Group, munu opna Natura-hótelið (gamla Loftleiðahótelið) í síðari hluta ágústmánaðar. Líkt og flestir vita er það sambyggt höfuðstöðvum flugfélagsins.