Sorgin er hin hliðin á ástinni

Ólafur Teitur Guðnason
Ólafur Teitur Guðnason Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir

Nöfn heimilisfólksins á heimili Ólafs Teits Guðnasonar í Vesturbænum eru grafin á litla álplötu við útidyrahurðina. Blaðamaður rýnir í nöfnin til að sjá hvort hann sé ekki örugglega á réttum stað. Platan er veðruð og máð en nöfnin þó enn nokkuð læsileg. Efsta nafnið af fjórum er fallegt og óvenjulegt: Engilbjört Auðunsdóttir. Hún býr því miður ekki lengur þarna því Engilbjört lést í blóma lífsins hinn 11. apríl 2019, á 47. aldursári. Engilbjört var hámenntuð glæsileg kona, móðir, eiginkona, dóttir og vinkona. Hún er sögð hafa verið með einstaklega dillandi hlátur.

Þessar hugsanir fljúga í gegnum huga blaðamanns sem hringir loks bjöllunni. Dyrnar opnast um leið og Ólafur býður glaðbeittur í bæinn. Hann er búinn að hita kaffi og við komum okkur þægilega fyrir í hlýlegri stofunni. Ólafur talar af ró og yfirvegun en líf hans og drengjanna hans tveggja gjörbreyttist fyrir rúmum tveimur árum.