Árið sem gámahafnirnar tepptust
Það er eitthvað einstaklega hrífandi við gámaflutningageirann: staðlaðar einingar sem minna á risastóra og litríka legókubba, á ferð og flugi um heiminn í stanslausu kapphlaupi um að hámarka skilvirkni og bæta afköst. Lögmálin eru skýr og fylgja reglum framboðs og eftirspurnar upp á hár. Um allan heim sitja snjallir karlar og konur yfir teikniborðum, kortum og Excel-skjölum og leita leiða til að gera betur með æ stærri og sparneytnari gámaskipum, æ lengri vöruflutningalestum, sjálfakandi flutningabílum, afkastameiri skipaskurðum og nýrri tækni.
Nýlegur vandi skipaflutningageirans sýnir vel hvað þetta gangverk er í senn fínstillt og næmt fyrir breytingum því vegna óvæntra flöskuhálsa og sveiflna í eftirspurn hefur kostnaðurinn við að flytja gáma frá Asíu til helstu markaðssvæða í N-Ameríku og Evrópu rokið upp úr öllu valdi. Fyrir örfáum misserum kostaði í kringum 2.000 dali að láta ferja 40 feta gám frá Asíu til Evrópu en í dag kostar sama þjónusta um...