Ekki í mínum villtustu draumum!

Vanda Sigurgeirsdóttir ætlar að leggja mikla áherslu á fræðslu og …
Vanda Sigurgeirsdóttir ætlar að leggja mikla áherslu á fræðslu og forvarnir innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Við Vanda Sigurgeirsdóttir, nýkjörinn formaður Knattspyrnusambands Íslands, horfum yfir fagurgrænan og rennisléttan Laugardalsvöllinn meðan Kristinn Magnússon ljósmyndari stillir græjum sínum upp og landsleikurinn gegn Armeníu í karlaflokki, sem fara á fram rúmum sólarhring síðar, berst í tal. „Hefði einhver sagt við mig fyrir örfáum vikum að ég ætti eftir að sitja í heiðursstúkunni á þessum leik við hliðina á forseta Íslands hefði ég farið að hlæja,“ segir Vanda sposk á svip. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er, segir spakmælið, og Vanda er þvert á öll áform tekin við formennsku í KSÍ – og það á snúnustu tímum í sögu sambandsins.