Í ógnargreipum eiturlyfjabaróna
Tveir menn voru fyrr í þessum mánuði dæmdir í 30 ára fangelsi fyrir að skjóta til bana Derk Wierum, verjanda lykilvitnis í máli gegn helsta eiturlyfjabaróni Hollands árið 2019. Í liðinni viku hófust réttarhöld gegn tveimur mönnum, sem sakaðir eru um að hafa myrt blaðamanninn Peter R. de Vries með köldu blóði í sumar. De Vries var þekktur fyrir fréttir sínar úr undirheimum Hollands og telur lögregla ljóst að ástæðan fyrir morðinu sé að hann hafi verið sama vitni innan handar.
Bæði þessi morð hafa skekið Holland og hafa verið höfð til marks um það að landið sé að breytast í dópríki þar sem eiturlyfjagengi hafa tögl og hagldir og þeir sem vogi sér að bjóða þeim byrginn séu í bráðri hættu. Í þessum mánuði var öryggisgæsla Marks Rutte, forsætisráðherra landsins, sem ávallt hefur hjólað eða gengið í vinnuna, efld vegna þess að vísbendingar komu fram um að eiturlyfjamafían hygðist ráða hann af dögum eða ræna honum.
Ridouan Taghi nefnist foringi...