Færðist of mikið í fang

Breskir hermenn sjást hér á gangi í Helmand-héraði árið 2010, …
Breskir hermenn sjást hér á gangi í Helmand-héraði árið 2010, en þar var hart barist í stríðinu. AFP

Atlantshafsbandalagið færðist of mikið í fang í Afganistan, og leyfði sér að vera dregið út í tilraun til þess að endurbyggja hið stríðshrjáða land, frekar en að halda sig við hið þrönga hernaðarhlutverk sem bandalaginu var ætlað í upphafi.

Svo sagði John Manza, aðstoðarframkvæmdastjóri aðgerða hjá bandalaginu, í gær en hann hefur síðustu vikur leitt nefnd sem er að rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis í þátttöku bandalagsins í Afganistanstríðinu.

Auk Manza er nefndin skipuð fulltrúum bandalagsríkjanna 30, en hún var sett á fót eftir að talíbanar náðu að kollvarpa ríkisstjórn landsins í haust með undrasnöggum hætti án þess að stjórnarherinn, sem þjálfaður hafði verið af bandalagsríkjunum, fengi rönd við reist. Manza kynnti frumniðurstöður nefndarinnar á fundi varnarmálaráðherra bandalagsins í síðustu viku, en von er á lokaskýrslu hennar um þarnæstu mánaðamót.