Makindalíf við hafnarbakkann
Fyrr í vetur átti ég erindi til Bandaríkjanna og ætlaði að nota tækifærið til að fjárfesta í nýrri tölvu. En þegar ég var búinn að finna fartölvuna sem mig langaði í, og ekkert var eftir nema að gefa framleiðandanum upp kortanúmerið mitt, tók ég eftir því að tölvan yrði ekki tilbúin til afhendingar fyrr en eftir margar vikur og útilokað að hún bærist á hótelið mitt í tæka tíð. Ástæðan var augljós: vöruflutningar á milli Kína og Bandaríkjanna voru komnir í hnút og tölvan væntanlega föst um borð í gámaskipi einhvers staðar undan ströndum Kaliforníu.
Svipaða sögu heyrði ég frá góðum kunningja sem leigir út íbúð í Flórída. Sófinn í íbúðinni hafði skemmst svo að þurfti að skipta honum út fyrir nýjan, en kom þá í ljós að það yrði margra mánaða bið eftir þessari vöru sem seljendur eiga alla jafna tilbúna á lager. Er ekki skrítið að bandarískir neytendur og framleiðendur séu órólegir, enda ekkert grín þegar fínstilltar aðfanga- og vöruflutningakeðjur fara úr skorðum.