Jólalög eða ómur af olíu

Innblástur sýningarinnar segir Styrmir vera „hvernig við mannfólkið og náttúran …
Innblástur sýningarinnar segir Styrmir vera „hvernig við mannfólkið og náttúran eigum í reiptogi“.

„Ég er að fara að sýna röð nýrra skúlptúrverka sem eru áframhald af skúlptúriðkun minni,“ segir myndlistarmaðurinn Styrmir Örn Guðmundsson um sýningu sína UFO. Hún verður opnuð í Y gallery, gömlu bensínstöðinni í Hamraborg, á morgun, laugardag, kl. 15. Listamaðurinn sýnir þar origamiskúlptúra sem búnir eru til úr messing-málmi. Hann hefur beygt málminn í ýmiss konar skutlur, pílur og fljúgandi loftaflshluti. Skúlptúrarnir minna því helst á gylltar útgáfur af þeim skutlum sem maður býr til úr hefðbundnum A4-pappír.

„Í rauninni er útgangspunktur þessara skúlptúra að búa til eitthvað fallegt úr hversdagslegum hlut eins og A4-blaði nema þetta er náttúrlega úr málmi svo það er aðeins fallegri bragur yfir því. Ég lít líka á þetta sem brúður í einhvers konar leikhúsi vísindaskáldskapar, þetta er svolítil sci-fi-sýning.“ Hann hefur áður notað slíka hluti sem brúður í svokölluðum „leikbrúðuslamm“-gjörningum í Póllandi og Mexíkó.