Skrifin læddust aftan að mér

Morgunblaðið/Ásdís

Í gömlu verkamannabústöðunum við Ásvallagötu hefur leikkonan Aldís Amah Hamilton búið sér fallegt heimili. Hún býður blaðamanni inn í litla og smekklega íbúð sína og hefur dekkað borð. Te og kaffi, smákökur og súkkulaði er í boði og eftir að hafa bragðað á öllum tegundum er tími til að spjalla.

Aldís er sjarmerandi og brosmild með leiftrandi brún augu og fallega liðað hár niður á bak. Dökka yfirbragðið fékk hún í arf frá föður sínum. Við ræðum um lífið og tilveruna, pabbann í Ameríku, tilviljanir sem leiddu hana á leiklistarbrautina og að sjálfsögðu Svörtu sanda, glænýja seríu sem frumsýnd verður um jólin. Þar leikur Aldís aðalhlutverkið, en það er ekki allt og sumt. Hún er einnig einn handritshöfunda, hún sem ætlaði aldrei að skrifa.