Fer allra sinna ferða á reiðhjóli

Jólin 1986. Þorleifur með börnum sínum og móður, frá vinstri: …
Jólin 1986. Þorleifur með börnum sínum og móður, frá vinstri: Þórunn og Ari, Þorleifur með Álfdísi í fanginu og Ásthildur með Kára.

Þorleifur Hauksson fæddist 21. desember 1941 í Reykjavík. „Ég er fæddur og uppalinn í litlu bárujárnshúsi, Urðartúni við Laugarásveg. Ljósmóðir var Rakel Pétursdóttir mágkona pabba, kona Jóns Þorleifssonar listmálara. Þetta var erfið fæðing, naflastrengur tvívafinn um hálsinn á drengnum, en allt fór vel. Þess má geta að læknirinn á staðnum var Úlfar Þórðarson augnlæknir, og kannski á ég honum að þakka að ég les enn þá gleraugnalaust! Á þessum tíma voru aðeins örfá hús í Laugarásnum og öll hétu einhverjum nöfnum. Umhverfið var ævintýraland fyrir krakka, lynggróður og álfaborgir í holtinu fyrir ofan veginn, og í Laugardalnum var enn stundaður búskapur, hestar, kýr og hænsni.“