Rangfærslur og rugl úr Hvíta húsinu

Washington. Joe Biden Bandaríkjaforseti á fréttamannafundi í borðsal Hvíta hússins …
Washington. Joe Biden Bandaríkjaforseti á fréttamannafundi í borðsal Hvíta hússins á aðventu. Fleiri klóra sér í höfðinu vegna fullyrðinga hans. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti var ekki orðlagður fyrir nákvæmni í orðavali, var raunar iðulega sakaður um ósannsögli og upplýsingaóreiðu, en svo rammt kvað að þessu að ýmsir bandarískir fjölmiðlar höfðu sérstaka staðreyndavakt um allt sem frá forsetanum kom.

Að hluta var það framtak vafalaust af pólitískum rótum runnið; margir höfðu ímugust á forsetanum og málflutningi hans, en fjölmiðlastéttin vestra hefur um áratugaskeið hallast til vinstri og mikill meirihluti bandarískra dagblaða styður demókrata í kosningum.

Það breytir ekki hinu, að það er einmitt snar þáttur í hinu sérstaka hlutverki fjölmiðla að halda valdhöfum við efnið, sannreyna staðhæfingar þeirra og eftir atvikum afhjúpa rangfærslur, mistök og lygimál.