Arftaki Johnsons ekki enn í sjónmáli

Boris Johnson er í miklum vanda vegna veisluhalda á veirutímum.
Boris Johnson er í miklum vanda vegna veisluhalda á veirutímum. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á ekki sjö dagana sæla nú í embætti, þar sem á hverjum degi birtast nýjar og nýjar uppljóstranir um veisluhöld í Downingstræti 10, meðan strangar samkomutakmarkanir voru í gildi í Bretlandi.

Nýjustu uppljóstranirnar birtust í sunnudagsútgáfu Daily Telegraph, en þar sást Carrie Johnson, eiginkona forsætisráðherrans, í faðmlögum með vinkonu sinni í september 2020, en á þeim tíma höfðu Bretar fengið fyrirmæli um að forðast nálægð við nokkurn mann sem ekki bjó í sömu íbúð.

Carrie Johnson sagði í yfirlýsingu í gær að hún sæi eftir þeim „tímabundna dómgreindarskorti“ sem hún hefði sýnt af sér, en tilefni gleðskaparins var að vinkona hennar hafði trúlofað sig.