Þeir varkáru lifa af áföllin

Sápa skorin með gamla laginu í Sýrlandi. Þar má finna …
Sápa skorin með gamla laginu í Sýrlandi. Þar má finna rótgrónar sápuverksmiðjur sem starfa með allt öðrum hætti en stóru alþjóðafyrirtækin. Hráefnið er fengið úr nærsveitum og vélvæðingin í lágmarki. Þrátt fyrir róstur og stríð hafa sápugerðirnar sýnt næga seiglu til að geta haldið rekstrinum gangandi í margar kynslóðir. AFP

Ef mannkynssagan er skoðuð í gegnum linsu þróunarlíffræði þá kemur ekki á óvart að hjá flestum menningarsamfélögum megi finna goðsagnir sem minna fólk á að vera viðbúið skelfilegum náttúruhamförum. Hamfarirnar verða nefnilega með reglulegu millibili og þeir þjóðflokkar og samfélög sem sögðu börnunum sínum sögur sem innrættu þeim hæfilega varkárni og fyrirhyggjusemi voru þau sömu og áttu auðveldast með að lifa af flóð, jarðskjálfta, eldgos og innrásir– og þess vegna eru það þeirra sögur sem lifa enn.

Þjóðflokkarnir sem kenndu börnum sínum ekki að reisa háa virkisveggi eða eiga nægar birgðir af mat hurfu einfaldlega af yfirborði jarðar þegar veturinn var óvenju langur eða óvinurinn birtist við túngarðinn.