Það er bara tónlist – þetta er flug!

Moni um borð í Piper-vélinni sem Vladimir Ashkenazy flaug af …
Moni um borð í Piper-vélinni sem Vladimir Ashkenazy flaug af mikilli list til Grímseyjar um árið. Og útvegaði okkur fyrirsögn á þessa grein tæpum sex áratugum síðar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hafi ég búist við að hitta gamlan mann á flugvellinum á Akureyri var það misskilningur. Sá sem tekur á móti okkur Árna Sæberg ljósmyndara er teinréttur í baki og léttur á fæti. Er þetta réttur maður, hann getur ekki verið meira en sjötugur? En kirkjubækur ljúga ekki, frekar en Mogginn, Hallgrímur Jónsson, eða Moni eins og hann er gjarnan kallaður, verður áttræður 7. febrúar næstkomandi. Ótrúlegt en satt. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri, áður en hann „fór í hundana suður“, eins og hann orðar það sjálfur. Það var til að læra að fljúga snemma á sjöunda áratugnum og hann sneri ekki aftur fyrr en fyrir fjórum árum.