Emmanuel Macron kveikir á perunni

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpar gesti í verksmiðju í Belfort þar …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpar gesti í verksmiðju í Belfort þar sem túrbínur fyrir kjarnorkuver eru smíðaðar. Allt að fjórtán ný kjarnorkuver eru komin á teikniborðið í Frakklandi, enda ekkert vit í öðru. AFP

Það á við um okkur flest að það gerist ekki fyrr en rafmagnið fer af að við skiljum það til fulls hvernig nægt framboð af ódýrri orku er grunnforsenda hagsældar og almennra lífsgæða. Auðlegð þjóða helst í hendur við getu þeirra til að framleiða orku.

Ég er orðinn dauðþreyttur á tíðu rafmagnsleysi hér í strandbænum við Karíbahaf þar sem ég hef þurft að hírast undanfarna mánuði. Bara það sem af er þessari viku hefur hverfið mitt myrkvast í tvígang, nokkrar klukkustundir í senn, og á örfáum mínútum verður ólíft í íbúðinni minni því loftkælingin er það eina sem heldur hitasvækjunni í skefjum.