Skjálfandi á beinunum á bjargbrúninni
Búið er að veikja stöðu þeirra sem áður höfðu nánast einkarétt á að miðla fréttum og móta almenningsálitið. Netið hefur hrist upp í öllu og útkoman nokkurs konar geðklofi þjóðarsálarinnar.
Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari en atburðir undanfarinna vikna og missera hafa fengið mig til að finnast mannkynið hafa færst óþægilega nálægt bjargbrúninni. Er eins og hamfarir séu handan við hornið, einmitt þegar við ættum að fagna því að lifa á mestu friðar- og hagsældartímum sögunnar.
Hvers lags lukka er það að geta notið alls þess sem árið 2022 hefur upp á að bjóða? Með nokkrum strokum á snjallsíma má nálgast allan tónlistar- og kvikmyndaarf mannkyns, finna svörin við öllum spurningum í ókeypis alfræðiorðabókum og lesa öll heimsins dagblöð og bækur. Meira að segja í smáum strandbæ í Mexíkó getur íslenskur nautnaseggur fengið bestu rétti allra þjóða senda heim að dyrum á rétt rúmum hálftíma. Ef íslenska blaðamanninum fer að leiðast dvölin á einum staðnum getur hann...