Lagðist gegn sjálfstæði Úkraínu

Syrgjendur minnast hinna látnu eftir að sovéskar sérsveitir réðust á …
Syrgjendur minnast hinna látnu eftir að sovéskar sérsveitir réðust á sjónvarpsturninn í Vilníus 13. janúar 1991 og drápu 14 manns. Í skjölunum kemur fram að þýsk stjórnvöld hafi lagst gegn sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Morgunblaðið/RAX

Gögn úr skjalasafni Vestur-Þýskalands frá árinu 1991, sem nýlega fengu að líta dagsins ljós, sýna að Helmut Kohl, þáverandi Þýskalandskanslari, vildi koma í veg fyrir að Úkraína og Eystrasaltsríkin fengu sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Þá lagðist Kohl gegn því að Atlantshafsbandalagið myndi stækka til austurs.

Leibniz-stofnunin í samtímasögu sendir á hverju ári frá sér samansafn gagna úr utanríkisráðuneytinu sem leynd hefur verið létt af, en almenna reglan er sú að 30 ár þurfi að líða áður en skjöl eru gerð opinber.

Kohl og Hans-Dietrich Genscher, utanríkisráðherra og einn af leiðtogum frjálslyndra demókrata, eru í aðalhlutverki í skjölunum, og segir í umfjöllun Spiegel um þau í síðustu viku að þeir sem vilji gagnrýna utanríkisstefnu Þýskalands á síðustu árum muni finna margt sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að Þjóðverjar hafi tekið of mikið tillit til hagsmuna stjórnvalda í Moskvu.