Ófrelsið gerir leiguna dýra

Kona á gangi á rigningardegi í Tókýó. Þar var frelsið …
Kona á gangi á rigningardegi í Tókýó. Þar var frelsið virkjað til að koma skikk á húsnæðismarkaðinn og nær framboð íbúða að halda í við eftirspurn. AFP/CHARLY TRIBALLEAU

Bæði á Íslandi og víða erlendis hefur allt í einu hlaupið mikið líf í umræðuna um að setja þak á leiguverð. Rök þeirra sem eru fylgjandi leiguþaki eru alla jafna á þá leið að okrið í leigusölum sé að gera út af við almenning og að eðlilegasta, besta og skjótvirkasta leiðin til að laga leigumarkaðinn sé að hið opinbera grípi inn í og ákveði leiguverð með lögum, eða verndi fólk a.m.k. gegn því að húsaleiga hækki óhóflega á milli ára.

Kjörnir fulltrúar (sem ættu að vita betur) berja sér á brjóst og segja óþolandi ástand á húsnæðismarkaði kalla á tafarlausar aðgerðir. Hagfræðingurinn og samfylkingarþingmaðurinn Kristrún Frostadóttir komst þannig að orði í nýlegu viðtali á Bylgjunni að hið opinbera ætti að ákveða hvað væri eðlileg arðsemi af leiguíbúð, og með hliðsjón af viðhalds- og fjármögnunarkostnaði nota formúlur til að reikna út hvað væri sanngjarnt leiguverð.