Hvernig er best að bregðast við kreppu?

Horfurnar virðast ekki góðar. Á myndinni er Peter Tuchman, verðbréfamiðlari …
Horfurnar virðast ekki góðar. Á myndinni er Peter Tuchman, verðbréfamiðlari í kauphöllinni í New York. Hann er eitt þekktasta andlit NYSE og í uppáhaldi hjá ljósmyndurum enda leynir svipur hans sjaldan hvernig honum líður. AFP/SPENCER PLATT

Á þessu ári hefur risastór skuggi lagst yfir markaði og taugatitringurinn magnast upp hjá fjárfestum. Um allan heim er verðbólgan á uppleið, seðlabankarnir eru byrjaðir að hækka stýrivexti og hlutabréfavísitölur eru í frjálsu falli.

„Eins og ég sagði um þróunina árið 2008, þá er þetta eins og að horfa á flugvél brotlenda. Það er sársaukafullt að fylgjast með, ekkert ánægjulegt við þessa þróun, og ég er ekki brosandi,“ skrifaði markaðsgreinandinn snjalli Michael Burry á Twitter í maí.

Burry er frægastur fyrir að hafa séð það snemma að risastór bóla var að blása út á bandarískum fasteignalánamarkaði á 10. áratugnum. Hann veðjaði á að bólan myndi springa og stórgræddi á fjármálakreppunni 2007 og 2008.