Pólverjar festa kaup á þúsund skriðdrekum
Pólland gekk á miðvikudag frá samkomulagi við Suður-Kóreu um kaup á tæplega þúsund K2-skriðdrekum, 648 sjálfknúnum K9-hábyssum og 48 FA-50-orrustuflugvélum. Um er að ræða stærsta einstaka samning um sölu hergagna í sögu Suður-Kóreu. Samningurinn hefur vakið töluverða athygli, ekki síst þar sem Pólland hefur, frá því að landið gekk í Atlantshafsbandalagið árið 1999, fyrst og fremst keypt bandarísk vopn.
Verðmæti samningsins hefur ekki fengist staðfest. Áætlað er að það geti numið um 14,5 milljörðum bandaríkjadala.
Heraflinn tvöfaldast
„Afhending getur hafist 2022 og mun gera okkur kleift að koma upp sterkum her með að minnsta kosti 300.000 [hermönnum],“ sagði Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, á Twitter-síðu sinni um samninginn. Árið 2020 voru 114 þúsund hermenn í virkri þjónustu pólska hersins og um 32 þúsund varaliðar. Markmið pólskra stjórnvalda hefur verið, frá því í vor, að koma mannaflanum upp í 250 þúsund...