Fjórða krísan við Taívansund gæti varað lengi

Eric Holcomb, ríkisstjóri repúblikana í Indiana-ríki, heimsótti í gær Taívan og bættist þar með í hóp bandarískra fyrirmenna sem sýnt hafa samstöðu með eyjunni á síðustu vikum. Var tilgangur ferðarinnar sá að ræða efnahagsleg tengsl Indiana-ríkis og Taívans, en bandarísk stjórnvöld tilkynntu fyrir helgi að þau hygðust hefja fríverslunarviðræður við eyjuna, þrátt fyrir mótbárur og óánægju Kínverja.

Heimsóknir Bandaríkjamanna til eyjunnar hafa enda ýtt mjög undir spennu á milli Bandaríkjanna og Kína, og hafa Kínverjar svarað þeim með því að hefja heræfingar í nágrenni við eyjuna, og innan þess svæðis sem yfirvöld á Taívan hafa gert tilkall til. Kínverjar viðurkenna það hins vegar ekki, enda segja þeir Taívan hluta af Kína, þrátt fyrir að eyjan hafi aldrei verið á valdi kínverska kommúnistaflokksins.