Rándýr njósnafugl sendur til Úkraínu

Tupolev Tu-214R á flugi.
Tupolev Tu-214R á flugi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur sent afar sjaldséða njósnaflugvél, af gerðinni Tupolev Tu-214R, til Úkraínu. Er vélin sögð stunda upplýsingaöflun yfir vígvöllum landsins úr allt að 12 kílómetra hæð. Upplýsingarnar eru svo sendar hersveitum á jörðu niðri í rauntíma. Flugher Rússlands á einungis tvær flugvélar af þessari gerð og er sú þriðja í pöntun. Hver vél kostar fullbúin tækjum um tíu milljarða króna.

Árið 2012 náði rússneskur áhugaljósmyndari fyrstu myndum af Tu-214R á flugi. Var vélin þá enn í flugprófunum hjá flugvélaframleiðandanum KAPO, eða Kazan Aircraft Production Association's. Tu-214R er breytt útgáfa af rússnesku farþegaflugvélinni Tupolev Tu-214 og fengu njósnavélarnar tvær skráningarnúmerin RA-64511 og RA-64514. Tu-214R er ætlað að leysa af hólmi eldri njósnavél Sovétríkjanna sálugu, Ilyushin Il-20M sem fyrst flaug árið 1957.