Öld gervigreindar er runnin upp

Meðal þeirra gervigreindarforrita sem slegið hafa í gegn er teikniforritið …
Meðal þeirra gervigreindarforrita sem slegið hafa í gegn er teikniforritið Midjourney. Notandinn tilgreinir hvers konar teikningu hann vill fá og gervigreindin býr myndina til. Hér er útkoman sem blaðamaður fékk með því að biðja um mynd af gervigreindarróbota, sem læsi dagblað við morgunverðarborðið, málaðan í stíl Ilya Repin. Gervigreindarmynd/Midjourney og Ásgeir Ingvarsson

Ég ætlaði að vera agalega sniðugur og láta gervigreind hjálpa mér við að skrifa þennan pistil, en tæknigrúskarinn vinsæli, Marques Brownlee, varð fyrri til.

Brownlee er stórstjarna á YouTube og heldur þar úti rásinni MKDBH þar sem hann fjallar um allt það nýjasta í græjuheiminum. Þegar kom að því að fjalla um þær miklu framfarir sem hafa orðið í gervigreind upp á síðkastið brá Brownlee á leik og bað forritið ChatGPT að skrifa fyrir sig handritsbút. Allt sem hann þurfti að gera var að slá inn eftirfarandi skipun:

„Skrifaðu handrit fyrir YouTube-rásina MKBDH um hvers vegna gervigreind getur ekki komið í stað fólks sem býr til efni fyrir vefinn.“