Við þurfum að fara yfir leikreglurnar

Hjólað í manninn á rúgbí-leik í úthverfi Parísar. Twitter-uppljóstranirnar minna …
Hjólað í manninn á rúgbí-leik í úthverfi Parísar. Twitter-uppljóstranirnar minna á að umræðan er á hraðri leið í mjög alvarlegar ógöngur. AFP

Breski þáttastjórnandinn snjalli, Konstantin Kisin, átti nýverið gott spjall við John Anderson, fyrrverandi leiðtoga Þjóðarflokksins í Ástralíu. Umræðuefnið var hvernig heilbrigð og eðlileg samfélagsumræða á undir högg að sækja á Vesturlöndum og benti Kisin á að ástandið væri mun verra en fólk gerði sér grein fyrir. Hann nefndi sem dæmi að árið 2021 voru um 400 manns handteknir í Rússlandi fyrir að tjá sig á samfélagsmiðlum, og kemur varla á óvart enda rússnesk stjórnvöld ekki þekkt fyrir að halda mikið upp á tjáningarfrelsið. Hitt ætti að koma á óvart að sama ár voru 3.300 manns handteknir í Bretlandi fyrir færslur á samfélagsmiðlum og eru þá ekki taldir með allir þeir sem sluppu með tiltal frá lögreglunni.