Gunnar Dofri er skemmtilegur viðmælandi enda er hann því vel vanur að tala í mikrófóninn þar sem hann heldur sjálfur úti hlaðvarpinu Leitin að peningunum. Hann segir okkur frá því að 7 tonn eða heilir 2 gámar komi inn í góða hirðinn á dag! Við fræðumst hjá honum um plastið en það sem er óendurvinnanlegt er allt brennt. Nú fyrir jólin er gott að huga að því að frauðplastið utan um tæki og dót á alltaf að fara í endurvinnslustöð, alls ekki í plasttunnuna. Það má alls ekki brenna það með öðru plasti. Íslendingar hafa staðið sig virkilega vel eftir að nýtt flokkunarkerfi tók gildi og matarleyfarnar í brúnu pokunum eru að skila sér mjög hreinar og mun betur en vonir stóðu til. "Gaia" er gas- og jarðgerðastöð Sorpu sem tekur matarleifarnar og vinnur úr þeim metangas og moltu. Þetta er hægt að gera með hreinar matarleifar. Ef ekki er þekking á því hvernig skuli flokka ákveðna hluti þá finnst svarið við langflestu í uppflettilausn Sorpu sem er það fyrsta sem blasir við þegar farið er á vefsíðu Sorpu Sorpa.is. Ruslinu er slegið inn í leitarvél og þá vitum við nákvæmlega hvert hluturinn á að fara. Við prófuðum til dæmis kassann með mandarínunum og hann flokkast sem ómálað timbur. Gleðilega hátíð öll og njótið þess að fræðast á mannamáli um ruslið okkar.
EKKERT RUSL - Matarleifarnar okkar eru að miklu leyti að fara í réttan flokk, eða allt að 70%, eftir að nýtt samhæft ruslflokkunarkerfi tók gildi. Þetta segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta-og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu.