Bergrún er með ótrúlegan kraft og í raun framúrstefnulega hugsun þegar kemur að því að nýta matvæli. Hún þekkir það vel sjálf að þurfa að spara og nýta vel það sem er í ísskápnum og hefur risastórt hjarta, bæði gagnvart þeim sem minna mega sín og móður jörð. Hún hikar ekki við að fara með afganga í Frískápana svokölluðu sem eru víðsvegar um bæinn og segir okkur frá því þegar hún fór í frí og tæmdi ísskápinn sinn og fór með allt í Frískáp. Hún grípur sér líka stundum samloku þar fyrir sjálfa sig þegar hún er á hlaupum eða að keyra á milli verslana. Henni finnst að slíkir ísskápar eigi ekki eingöngu að þjóna þeim sem hafa lítið á milli handanna heldur að verða til þess að við öll nýtum matvæli betur og sækjum þangað mat ef svo ber undir og setjum að sjálfsögðu matvæli þangað á móti. Í starfi sínu hjá Hjálpræðishernum leiddi Bergrún verkefni um mataraðstoð, gegn matarsóun en það gerði hún með Samkaupum sem á fyrstu fimm mánuðum verkefnisins leiddi til rúmlega 20 milljóna króna styrks og hefur leitt tli þess að allt að 300 einstaklingum er daglega gefin heit máltíð í hádeginu. Bergrún er menntuð í fata- og textílhönnun og hefur hlotið umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu. Bergrún er mikil uppspretta fróðleiks um þessi mál.
EKKERT RUSL - Hún hefur lyft grettistaki þegar kemur að því að nýta mat þannig að allir hafi hag af. Bergrún Ólafsdóttir starfar nú sem verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum en var áður hjá Hjálpræðishernum.