Herinn í Mjanmar framdi þjóðarmorð á Róhingjum. Þessari afstöðu Bandaríkjastjórnar lýsti Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna opinberlega yfir í gær. Úttekt stjórnarinnar á aðgerðum mjanmarska hersins gegn Róhingjum árin 2016 og 2017, sem meðal annars var byggð á viðtölum við yfir þúsund Róhingja, leiddu í ljós skýran ásetning hersins um að þurrka út Róhingja með öllu, að sögn utanríkisráðherrans. Við skoðum málið í fyrri hluta þáttarins. Volodymir Zelensky, forseti Úkraínu, ítrekaði í gær að fundur á milli hans og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta væri forsenda þess að einhver árangur næðist í friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands. Samninganefndir ríkjanna hafa nokkrum sinnum átt í viðræðum frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í lok febrúar, oftast í gegnum fjarfundabúnað, en þær viðræður hafa litlu skilað. En hvernig fara svona friðarviðræður fram? Um hvað er reynt að semja? Og geta þjóðir sem eru í stríði samið um nokkurn skapaðan hlut? Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, ræðir við okkur um friðarviðræður milli Rússa og Úkraínumanna í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.