Níðstöng með afskornum hrosshaus var reist á landi Skrauthóla á Kjalarnesi í lok apríl, í kjölfarið á nágrannaerjum. Málið vakti talsverða athygli enda ekki algengt að fólk tjái sig með þessum hætti. Málið er dularfullt en samkvæmt nýjustu fréttum er enn ekki vitað hvaðan hrosshausinn kemur sem settur var á níðstöngina og það liggur ekki heldur fyrir að hverjum níðið beindist. En hvað er níðstöng og af hverju reisir fólk slíkar stangir? Eru mörg dæmi um að fólk reisi níðstangir í seinni tíð eða tilheyrir þetta fortíðinni? Við könnum málið ásamt Atla Fannari Bjarkarsyni í örskýringu vikunnar. Úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfubolta karla hefst í kvöld, þegar Valsmenn taka á móti Tindastóli á Hlíðarenda. Ár og dagar eru síðan Valsmenn fögnuðu Íslandsmeistaratitli í karlaflokki, og þá hafa Sauðkrækingar aldrei lyft bikarnum eftirsótta. Guðmundur Björn ræðir við körfuboltalýsendurna Hörð Unnsteinsson og Sigurð Orra Kristjánsson, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.