Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur til umfjöllunar hvort skerða skuli rétt kvenna til þungunarrofs í landinu. Í um hundrað blaðsíðna áliti Samuels Alito, hæstaréttardómara, sem lekið var til fjölmiðla, og Politico fjallar um, kemur fram að meirihluti réttarins sé andvígur tímamótadómnum Roe gegn Wade - frá 1973 - sem gerði þungunarrof að stjórnarskrárvörðum réttindum í ríkinu öllu. Dómi sem meirihluti Bandaríkjaþjóðar er fylgjandi. Verði Roe gegn Wade snúið við fær hvert ríki Bandaríkjanna að ákveða hvort heimila skuli þungunarrof þar eður ei - sem gæti þýtt að þungunarrof verði innan skamms bannað í fjölda ríkja landsins. Tæpar tíu vikur eru frá því stjórnvöld í Moskvu réðust inn í nágrannaríki sitt í vestri, Úkraínu. Á þeim tíma hafa fimm komma fimm milljónir Úkraínumanna flúið land, og hefur stríðið valdið mestu flóttamannakrísu í Evrópu á 21. öld. Fjórðungur íbúa Úkraínu hefur hrakist frá heimilum sínum. Engin leið er að vita nákvæmlega hve margir hafa týnt lífi. Stjórnvöld í Úkraínu áætla að bilinu tíu til 25 þúsund almennir borgarar hafi verið drepnir af Rússlandsher, á meðan Sameinuðu þjóðirnar telja að um fjögur þúsund almennir borgarar hafi fallið. Þá yfir þrjú þúsund úkraínskir hermenn látið lífið í átökunum, og tæplega 20 þúsund rússneskir. Jón Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Rússlands ræðir við okkur um nýjustu vendingar í stríðrinu, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.
Jón Ólafsson um Rússland og verður þungunarrof bannað í Bandaríkjunum?